Stundum verða stökur til … :: Séra Hjálmar gefur út ljóðabók

Séra Hjálmar í félagi við Króksarana Þröst Jóns og Júlla Jóhanns sem voru snöggir að næla sér í eintök af bókinni góðu. MYND AF FB-SÍÐU ÞRASTAR
Séra Hjálmar í félagi við Króksarana Þröst Jóns og Júlla Jóhanns sem voru snöggir að næla sér í eintök af bókinni góðu. MYND AF FB-SÍÐU ÞRASTAR

Séra Hjálmar Jónsson þarf vart að kynna fyrir lesendum Feykis, þekktur fyrir prestsstörf og þingmennsku og ekki síst fyrir skemmtilegar og landsfrægar vísur. Margar þeirra hafa fengið vængi en nú er loksins hægt að nálgast kviðlinga Hjálmars í nýútgefinni bók sem ber nafnið Stundum verða stökur til … og er hluti af tækifærisvísu sem hann orti á góðri stund, eins og segir á bókarkápu.

Vísan sú arna er einmitt fyrsta vísan í bókinni og hljóðar svo í heilu lagi:
Andagift ég ekki skil
eða þekki.
Stundum verða stökur til
og stundum ekki.

Ekki fylgir nein útskýring á tilurð vísunnar en undirritaður heyrði ágæta sögu sem gæti alveg átt við. Hvort hún er sönn veit ég ekkert um og bar hana ekki undir höfund. En sagan segir að Hjálmar hafi verið staddur á samkomu og einn gestanna hafi spurt sérann hvort hann gæti ekki samið vísu af því tilefni. Hjálmar hugsaði sig um í smá stund og þá kom þessi vísa.

Það er Bókaútgáfan Hólar sem gefur bókina út og segir á bókarkápu að bragsnillingurinn Hjálmar fari á kostum í leiftrandi kveðskap og frásögnum. „Skemmtileg atvik og viðburðir verða ljóslifandi og samskipti við fólk í gleði og gáska kitla hláturtaugarnar svo um munar. Einnig er í bókinni dýpri kveðskapur. Rauði þráðurinn er þó alltaf hjartahlýjan og húmorinn.“

Feykir hafði samband við Hjálmar og spurði fyrst hvað hann sjálfur segði um bókina og tilurð hennar.
-Fjölskylda mín var sífellt að minna mig á að týna ekki eða gleyma vísunum og tilefnunum sem þær tengdust. Ýmislegt átti ég skrifað á miðum og þegar ég hætti formlega í föstu starfi þá var allt í einu kominn tími til að tína þetta saman, rifja upp skemmtileg atvik, stemminguna sem vísa eða ljóð kviknaði við. Ég hafði þann háttinn á að vera sögumaður í bókinni, skrifa til lesandans, segja honum eða henni frá.

Manstu hvenær þú uppgötvaðir þann hæfileika að geta sett saman vísu?
-Já, ég var átta ára gamall. Kristinn afi minn var í heimsókn, hann fór með margar vísur og um kvöldið skrifaði ég niður vísu sem ég samdi. Hún var nokkurn veginn rétt og miðað við hvað afi varð glaður þá hélt ég auðvitað áfram.

Hver er galdurinn á bak við góða og fleyga vísu?
-Hún þarf að hitta í mark. Hún þarf að vera hnyttin og fanga augnablikið, tala inn í sérstakar aðstæður, jafnvel að útskýra flókið mál á einfaldan hátt. En mest þykir mér um vert að hún kveiki bros og kalli á góðar tilfinningar.

Margar vísurnar hafa orðið til hjá Hjálmari á langri ævi og aðspurður hvort hann haldi meira upp á einhverjar umfram aðrar, segir hann það vera hver sú vísa sem á við í það og það skiptið. „Vísan sem talar inn í líðandi stund.“

Til er málsháttur sem segir að tungan sé beittari en sverðið og viðurkennir Hjálmar að hafa verið glannalegur stundum en rekur þó ekki minni til þess að hafa lent í stórvandræðum.

Hola í höggi

Hvað er verið að gera í dag?
-Nú nýt ég þess að hitta fólk og afhenda bókina, rifja upp góð kynni. Mér finnst frábært að fólk skuli taka bókinni svona vel strax á fyrstu dögunum. Ég stunda svo golfið, vinn eitt og eitt embættisverk fyrir vini og kunningja og ver tíma með mínu fólki.

Og talandi um golf þá sagði Feykir frá því árið 2018 að séra Hjálmar hafi farið holu í höggi í þriðja sinn. Skyldi hann hafa bætt þann árangur?
-Nei, ekki síðan þá. En mér finnst viðtökurnar við bókinni vera eins og hola í höggi. Það er mér afskaplega dýrmætt.

Í lokin fær Feykir góða kveðju í bundnu máli en hana er ekki að finna í bókinni góðu sem þó er vert að mæla með að allir vísnavinir eignist. Hún er innbundin, 175 blaðsíður og kostar litlar 5.990 krónur út úr búð.

-Þar sem ég þekki nú Feyki frá upphafi, þá er kveðja til ykkar að lokum:

Þið hafið í stykkinu staðið
og stundum í fréttirnar hlaðið.
Fjölmiðlun öll
er frábær og snjöll
og Feykir er flottasta blaðið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir