Stutt gaman Skagfirðinga í Útsvari
Það hryggir Feyki að þurfa að greina frá því að þátttaka liðs Skagafjarðar í Útsvari Sjónvarpsins reyndist frekar endaslepp þennan veturinn. Andstæðingarnir sem skipuðu lið Vestmannaeyja reyndust þegar upp var staðið hafa fengið fleiri stig í keppni sveitarfélaganna síðatliðið föstudagskvöld og sigruðu raunar af nokkru öryggi. Lokatölur voru 56-28 fyrir Eyjamenn.
Þau Björg, Heiðdís og Ingólfur komust aldrei í gírinn og fannst raunar mörgum sem lið Skagafjarðar hafi verið frekar óheppið að þessu sinni. Reyndar er Feykir ekki með það á kristaltæru hvort úrslitin þýði að lið Skagafjarðar sé gjörsamlega úr leik eða hvort þau 28 stig sem liðið endaði með dugi til einhverskonar framhaldslífs í leiknum þetta árið en það verður sennilega að teljast ólíklegt.
En það er sama gamla sagan með svona spurningaleiki – maður veit það sem maður veit en hitt ekki. Það er því heppilegra að fá spurningar sem maður veit svörin við.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.