Styrkjum til tækjakaupa fyrir lífræna framleiðslu úthlutað í fyrsta sinn
Á vef Stjórnarráðsins kemur fram að Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra hafi úthlutað styrkjum til tækjakaupa fyrir lífræna framleiðslu. Þetta er í fyrsta sinn sem slíkum styrkjum er úthlutað og er styrkveitingin ein aðgerða í aðgerðaráætlun til eflingar á lífrænni framleiðislu sem kom út í ágúst 2024.
Í aðgerðaáætluninni eru settar fram fjórtán aðgerðir sem skipt er í nokkra málaflokka þar sem hver málaflokkur snýr að tilteknum hluta virðiskeðju lífrænna matvæla eða að innviðum sem nauðsynlegir eru til að keðjan verði sem sterkust.
Auglýsing var birt í byrjun árs og bárust ellefu umsóknir. Fagráð í lífrænni ræktun veitti umsagnir um umsóknirnar en úthlutun var á vegum atvinnuvegaráðuneytisins.
Til ráðstöfunar á árinu 2025 eru 30 milljónir kr. en úthlutað var 24,5 milljónum.
Þau Elínborg Erla Ásgeirsdóttir, bóndi í Breiðargerði og Friðgeir Jónasson, bóndi í Blöndudalshólum fengu sinn styrkinn hvor, Elínborg 1.090.000 kr. og Friðgeir 469.000 kr.