Styttist í lokafrest í lagakeppni Skagfirðingafélagsins

Skagfirðingafélagið í Reykjavík er þessa dagana að leita eftir nýjum dægurlögum sem ætlunin er að gefa út í tilefni af 80 ára afmæli félagsins í haust. Tekið er við lögum í allskonar ástandi, segir í tilkynningu frá félaginu, og þurfa þau ekki að vera fullunnin. Sérstök fagdómnefnd verður fengin til að velja 10 lög og munu höfundar þeirra fá í kjölfarið styrk frá Skagfirðingafélaginu til þess að fullvinna þau eða 100.000 kr. á hvert lag svo það er til mikils að vinna.

Lögin 10 sem verða fyrir valinu munu síðan verða flutt á 80 ára afmælishátíð Skagfirðingafélagsins í Reykjavík þann 7. október í haust. Lögunum ber að skila á geisladisk fyrir 15. maí næstkomandi undir dulnefni en rétt nafn höfunda skal fylgja með í lokuðu umslagi.

Heimilisfangið er:

Skagfirðingafélagið í Reykjavík
Afmælislögin
Háulind 32
210 Kópavogur

„Munið að lögin þurfa alls ekki að vera fullunnin þegar þið sendið okkur þau, en talsvert hefur verið spurt um það. Koma svo Skagfirðingar nær og fjær, þetta verður bara skemmtilegt,“ segir á fésbókarsíðu Skagfirðingafélagsins.

Fleiri fréttir