Sumarmessur sunnudaginn 27. júlí

Sunnudaginn 27. júlí verða nokkrar sumarmessur í kirkjum Skagafjarðar og flestar að kvöldi til. Sumarmessan í Hofstaðakirkju hefst kl 20:30. Þar verður ræðumaður kvöldsins Gunnar Rögnvaldsson og kirkjukórinn syngur undir stjórn Stefáns R. Gíslasonar. Kvöldmessa verður í Sauðárkrókskirkju og hefst hún kl 20:00.

Í Glaumbær verður messað kl. 11 að morgni og þar prédikar Sr. Ragnar Gunnarsson framkvæmdastjóri Kristniboðssambandsins en sr. Gísli Gunnarsson þjónar fyrir altari. Einnig verður messa í Hóladómkirkju kl. 11 og þar prédikar Sr. Gunnar Jóhannesson og þjónar fyrir altari.

Árleg helgistund verður í Grafarkirkju á Höfðaströnd á sunnudagskvöldið kl 20. Grafarkirkja, sem stendur í mynni Deildardals, er meðal elstu guðshúsa landsins og eitt fágætasta hús sem varðveist hefur. Sr. Gunnar Jóhannesson leiðir stundina og flytur hugleiðingu. Kirkjukór Hofsóss syngur fallega kvöldsálma undir stjórn Önnu Kristínar Jónsdóttur. Að venju bíður kirkjufólks kaffisopi og meðlæti í garðinum að helgistund lokinni.

Þá má geta þess að um helgina fer fram Kristniboðsmót á Löngumýri þar sem boðið er upp á fjölbreytta dagskrá alla helgina. Á laugardaginn kl 17 hefst kristniboðssamvera í umsjá kristniboða sem eru heima. Leifur Sigurðsson kristniboði talar. Lögð er áhersla á gott samfélag um guðs orð og kynningu á kristniboði Íslendinga. Ræðumenn og fyrirlesarar verða: Haraldur Jóhannsson, Skúli Svavarsson og Katrín Ásgrímsdóttir.

Fleiri fréttir