Súrt og svekkjandi tap í Boganum

Leikmenn Þórs/KA fagnar marki. Elísa Bríet reynir að hvetja Stólastúlkur í gang. MYND: AKUREYRI.NET
Leikmenn Þórs/KA fagnar marki. Elísa Bríet reynir að hvetja Stólastúlkur í gang. MYND: AKUREYRI.NET

Að skrifa um fimm marka ósigur í fótboltaleik er ekki góð skemmtun. Það er þó sennilega enn verra að vera í liðinu sem tapar 5-0. Í gær mættu Stólastúlkur góðu liði Þórs/KA í Bestu deildinni, leikurinn var orðinn erfiður eftir 18 mínútur og svo varð hann bara erfiðari. Heimastúlkur höfðu gert fjögur mörk fyrir hlé og bættu einu við á lokamínútunum. Lið Tindastóls fann aldrei taktinn í sókninni, fékk á sig mörk úr föstum leikatriðum og Akureyringar léku á alsoddi. En það er auðvitað eitthvað bogið við að spila í Boganum.

Lið Tindastóls varð fyrir áfalli í byrjun leiks því eftir 12 mínútna leikf varð Aldís María frá að hverfa eftir að hafa í tvígang fengið högg á höfuðið. Inn á kom Krista Sól. Fyrsta mark leiksins leit dagsins ljós mínútu síðar og þar var á ferðinni Agnes Birta með skalla eftir hornspyrnu en hún lék með liði Tindastóls sumarið 2000. Annað mark hennar í efstu deild og hefði alveg mátt sleppa því. Fimm mínútum. Fimm mínútum síðar bætti Karen María við marki, slapp í gegn og mat dómaratríóið að hún hefði verið réttstæð. Ekki var Tindastólsfólk sátt við það og Konni aðstoðarþjálfari fékk að líta tvö gul spjöld og þar með rautt. Staða Stólastúlkna því orðin erfið.

Iðunn Rán bætti við þriðja markinu á 33. mínútu og Sandra María slapp inn fyrir vörn Tindastóls í uppbótartíma og klíndi knettinum upp í samskeytin. Lokamarkið gerði Emelía Ósk á 83. mínútu og var þá búin að vera inná í örfáar mínútur.

Svekkjandi tap í leik þar sem aldrei kviknaði á okkar liði. Heimastúlkur pressuðu gestina í rassgat frá upphafi og voru í raun snöggar að gera út um leikinn. Í samtali við Fótbolti.net að leik loknum sagðist Donni þjálfari vera súr og svekktur með mörkin sem lið hans fékk á sig og að það hafi ekki haldið betur í boltann. „Við vorum að spila á móti liði sem er komið lengra en við, við vonuðumst til að geta gert aðeins betur en það gekk ekki," sagði Donni.

Lið Tindastóls var án Gabby og Birgittu og má í raun afskaplega illa við öllum skakkaföllum því breyddin er lítil þegar kemur að reynsluboltum. Það var þó ánægjulegt að Kristrún María kom inná í lokin en það eru um 16 mánuðir síðan hún sleit krossbönd og fleira til en það var einmitt í leik í Boganum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir