Svanhildur Pálsdóttir ráðin í 1238, The Battle of Iceland

Svanhildur og Jökull standa við píanóið sem Áskell Heiðar leikur á. Mynd af FB.
Svanhildur og Jökull standa við píanóið sem Áskell Heiðar leikur á. Mynd af FB.

Fyrir skömmu var greint frá því að Áskell Heiðar Ásgeirsson hafi verið ráðinn framkvæmdastjóri 1238, The Battle of Iceland, fræðslu- og upplifunarmiðstöðvarinnar um Sturlungaöldina sem opnar á Sauðárkróki í vetur. Nú hefur bæst í starfsmannahópinn því Svanhildur Pálsdóttir, fv. hótelstýra í Varmahlíð, hefur verið fengin til starfa. 

Sýningin, sem segir frá þeim stóru bardögum sem einkenndu öld Sturlunga og þá einkum Örlygsstaðabardaga sem fram fór árið 1238, er gagnvirk sem þýðir að gestir munu geta tekið mikinn þátt í henni og skapað sína eigin upplifun að hluta til sjálfir í sýndarveruleika. Í miðstöðinni verður einnig veitingastaður, upplýsingamiðstöð og safnbúð með vörum sem tengjast miðstöðinni.

1238 er í eigu Sýndarveruleika ehf. og stjórnarformaður þess er Ingvi Jökull Logason, en unnið hefur verið að uppbyggingu miðstöðvarinnar í rúm tvö ár. Framkvæmdir standa enn yfir í húsnæði því sem hýsa á sýninguna og er í eigi Svf. Skagafjarðar. Opnunardagurinn ræðst af framkvæmdum en Áskell Heiðar segist á Fésbókarsíðu sinni vonast til að geta boðið fyrstu gesti velkomna snemma á næsta ári.

Aðalgata 19. Mynd: PF

Aðalgata 19 - 21. Mynd: PF.

Nokkur styr hefur staðið í sveitarstjórn, sérstaklega síðasta vetur, vegna þeirrar ákvörðunar að gera húsið upp og leggja það endurgjaldslaust til sýningarhaldsins í ákveðinn tíma.

Aðspurður telur Gunnsteinn Björnsson, formaður atvinnu-, menningar- og kynningarnefndar sveitarfélagsins, að viðgerð hússins sé að miklu leyti á fjárhagsáætlun. „Samningur við sýndarveruleikann er ekki afgreiddur í sveitarstjórn né viðauki sem þarf til að klára  framkvæmdirnar. Þetta snýr hvorutveggja að Byggðaráði og sveitarstjórn. Af hálfu  nefndarinnar er malið afgreitt,“ segir hann.

„Við verðum „frumsýnd“ á Vest Norden ferðakaupstefnunni á Akureyri í byrjun næsta mánaðar og þá fer boltinn að rúlla – hlakka til að taka á móti ykkur sem flestum og sýna ykkur þegar þetta verður allt tilbúið!“ skrifar Áskell Heiðar á FB-síðu sína.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir