Sveitarfélagið Skagafjörður undirbýr útboð á sorphirðu og kaupir eignir Flokku

Húsnæði Flokku frá því 2008.
Húsnæði Flokku frá því 2008.

Sagt er frá því á heimasíðu Svf. Skagafjarðar að Ó.K. Gámaþjónusta ehf. og Sveitarfélagið Skagafjörður hafi komist að samkomulagi um kaup sveitarfélagsins á öllu hlutafé í einkahlutafélaginu Flokku ehf. sem hefur umsjón með móttöku á öllum úrgangi (nema lífrænum úrgangi) í héraðinu og í eigu Ó.K. Gámaþjónustu. Með kaupunum eignast Sveitarfélagið Skagafjörður eignir Flokku ehf. en þar er m.a. um að ræða sorpmóttökustöð að Borgarteig 12 á Sauðárkróki og tilheyrandi vélar og tæki.

Kaupin eru liður í undirbúningi sveitarfélagsins fyrir fyrirhugað útboð á sorphirðu en gert er ráð fyrir að sorphirða í Sveitarfélaginu Skagafirði og Akrahreppi verði boðin út á árinu 2022 og að sorpmóttökustöðin að Borgarteig 12 verði hluti þeirra innviða og aðstöðu sem útboðið tekur til. Samhliða var gerður leigusamningur á milli aðilanna þar sem sveitarfélagið leigir Ó.K. Gámaþjónustu fasteignina og tæki þar til niðurstaða fyrirhugaðs útboðs á sorphirðu liggur fyrir.

Feykir spurði Sigfús Inga Sigfússon, sveitarstjóra, hvers vegna sveitarfélagið þurfti að eignast Flokku. „Sveitarfélagið ætlar að bjóða út sorpþjónustu á árinu 2022. Sveitarfélagið átti ekki sorpmóttökustöðina á Sauðárkróki en nauðsynlegt þótti að slíkir innviðir yrðu tryggðir áður en útboð færi fram. Rekstur móttökustöðva verður hluti af útboðinu en með því teljum við að góð þjónusta og öflug starfsemi verði áfram til staðar í Skagafirði, óháð því hvaða aðili muni sjá um þjónustuna að útboði loknu. Rekstraraðili stöðvarinnar mun greiða leigu fyrir notkun hennar, líkt og er hjá öðrum sveitarfélögum þar sem svona háttar til,“ sagði Sigfús Ingi.

Húsnæði Flokku við Borgarteig á Sauðárkróki var vígt 22. febrúar 2008 en starfsemin hófst 1. mars eða um viku síðar. Var þá gámasvæðinu á Sauðárkróki lokað og Skagfirðingar hófu að flokka sorp af miklum móð.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir