Sveitarfélög á Norðurlandi vestra fá rúma 3,7 milljarða króna í jöfnunarframlög

Eyjólfur Ármannsson innviðaráðherra hefur samþykkt tillögu ráðgjafanefndar Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga um fyrstu áætlanir fyrir árið 2026 um almenn jöfnunarframlög, almenn jöfnunarframlög til reksturs grunnskóla og framlög vegna sérþarfa fatlaðra barna. Í frétt Húnahornsins um málið segir að um sé að ræða fyrstu áætlun samkvæmt nýju úthlutunarlíkani sem tekur við af útgjaldajöfnunarframlagi, tekjujöfnunarframlagi og fasteignaskattsframlagi.

Framlagið er reiknað samkvæmt nýjum lögum um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga númer 56/2025. Gert er ráð fyrir því að áætlunin verði uppfærð jafnt og þétt eftir því sem forsendur gefa tilefni til, líkt og áður átti við um þau framlög sem nýtt úthlutunarlíkan tekur við af.

Fjárhæð framlaganna nemur 28.175 milljónum króna en af þeirri fjárhæð reiknast 1% í svokallað höfuðstaðaálag. Til almennrar úthlutunar renna því 27.893 milljónir króna sem skipt er með nýju úthlutunarlíkani. Samtals nema jöfnunarframlög til reksturs grunnskóla 16 milljörðum og framlög vegna sérþarfa fatlaðra grunnskólabarna nema tæpum fjórum milljörðum.

Af sveitarfélögum á Norðurlandi vestra fær Sveitarfélagið Skagafjörður hæsta almenna jöfnunarframlagið eða rúman 1,5 milljarð króna. Húnabyggð fær um 540 milljónir, Húnaþing vestra um 487 milljónir og Sveitarfélagið Skagaströnd rúmar 217 milljónir.

Almenn jöfnunarframlög til reksturs grunnskóla skiptast þannig milli sveitarfélaga á Norðurlandi vestra að Sveitarfélagið Skagafjörður fær 467 milljónir, Húnabyggð 239 milljónir, Húnaþing vestra 125 milljónir og Sveitarfélagið Skagaströnd 95 milljónir.

Framlög vegna sérþarfa fatlaðra grunnskólabarna skiptast þannig að Sveitarfélagið Skagafjörður fær tæpar 18 milljónir, Húnaþing vestra 14 milljónir, Húnabyggð rúmar 11 milljónir og Sveitarfélagið Skagaströnd rúmar sex milljónir.

Samtals fær Sveitarfélagið Skagafjörður, frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga á næsta ári, rúma tvo milljarða, Húnabyggð fær 790 milljónir, Húnaþing vestra 626 milljónir og Sveitarfélagið Skagaströnd 318 milljónir. Heildarfjárhæðin sem fer til sveitarfélaganna á Norðurlandi vestra nemur kr. 3.736.891.135.

Sjá má skiptingu framlaga úr jöfnunarsjóði á milli sveitarfélaga á vef Stjórnarráðsins.

Heimild: Húnahornið

Fleiri fréttir