Sveitarstjórn harmar virðingarleysi heilbrigðisráðherra

 

Á fundi sveitarstjórnar svf. Skagafjarðar í gær var tekist á um það hvort fréttatilkynning sem send var fjölmiðlum í nafni sveitarstjórnarinnar og fjallar um vinnubrögð og ummæli heilbrigðisráðherra vegna málefna heilbrigðisstofnunarinnar, hafi réttilega verið í hennar nafni.

Eins og kunnugt er gaf Gréta Sjöfn út yfirlýsingu í kjölfarið að fréttatilkynning hafi ekki verið unnin í samráði við hana né með hennar vitund og því geti hún ekki verið í nafni sveitarstjórnarinnar. -Ég harma að ákvörðun um að senda út þessa fréttatilkynningu hafi verið tekin án samráðs allra sveitarstjórnarfulltrúa og samþykktar í sveitarstjórn. Það er ekki nóg að kallað sé eftir samráði hjá ríkisvaldinu heldur þarf að huga að samráði innan sveitarstjórna og í þessu tilfelli innan Sveitarstjórnar Sveitarfélagins Skagafjarðar, segir í yfirlýsingu Grétu.

Eftir nokkrar umræður lagði Viggó Jónsson fram eftirfarandi tillögu.

"Vegna ummæla heilbrigðisráðherra á Alþingi um að hópur á vegum ráðuneytisins sé nú á ferð um landið og haldi fundi með framkvæmdastjórum heilbrigðisstofnana og heimamönnum til að safna upplýsingum um stöðu mála þar sem til stendur að fara í stórfelldar skipulagsbreytingar á heilbrigðisþjónustu ásamt miklum niðurskurði á fjárveitingum, vill sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar láta eftirfarandi koma fram: Sveitarstjórn er kunnugt um að ráðuneytismenn hafi rætt við framkvæmdastjóra og starfsfólk en ekki hefur verið haft neitt samband við sveitarstjórn eða aðra heimamenn um málið. Sveitarstjórn harmar það virðingarleysi sem fram kemur í vinnubrögðum ráðherra og starfsmanna ráðuneytis gagnvart heimamönnum þegar áform um svo gríðarlegar skipulagsbreytingar er að ræða sem tillögur í fjárlögum bera með sér. Ráðherra hefur ekki enn sinnt beiðni sveitarstjórnar frá 4.október s.l. um fund með sveitarstjórn vegna málsins.”

Greinargerð fylgdi tillögunni þar sem segir að þó texti tillögunnar hafi þegar verið settur fram í fréttatilkynningu er mikilvægt að undirstrika alvöru boðaðra skipulagsbreytinga og niðurskurðar á heilbrigðisþjónustu fyrir skagfirskt samfélag, með því að sveitarstjórn árétti efni fréttatilkynningarinnar. Hjá því verður ekki komist að stjórnvöld og heilbrigðisráðherra sæti alvarlegri gagnrýni fyrir vinnubrögð sín.

Forseti bar tillöguna  upp til samþykktar og var hún samþykkt samhljóða en fulltrúi samfylkingar Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir gerði grein fyrir atkvæði sínu og lagði fram eftirfarandi bókun.

„Ég fagna því að sveitarstjórn fundi vegna boðaðs niðurskurðar á Heilbrigðisstofnuninni á Sauðárkróki. Það var frumhlaup að senda út fréttatilkynningu sl. föstudag í nafni Sveitarstjórnar Sveitarfélagsins Skagafjarðar án þess að samþykkt lægi fyrir. Þetta er rétta leiðin enda fer sveitarstjórn með æðsta vald sveitarfélagsins. Ég tek heilshugar undir þessa tillögu. Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir“.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir