Sveitarstjórnir í Austur-Húnavatnssýslu ræða sameiningarmál
Boðað hefur verið til sameiginlegs fundar sveitarstjórna í Austur Húnavatnssýslu til að ræða sameingingarmál á svæðinu. Verður hann haldinn í Fellsborg á Skagaströnd fimmtudaginn 24. ágúst nk.
Eins og Feykir.is hefur áður greint frá greint frá sendi Sveitarfélagið Skagafjörður nýlega erindi til sveitarfélaga í Austur-Húnavatnssýslu þess efnis að sveitarfélögin Skagabyggð og Skagafjörður hafi átt í óformlegum viðræðum um sameiningu sveitarfélaganna. Eru önnur sveitarfélög á svæðinu sem áhuga hafa á að ræða enn stærri sameiningu einnig boðin velkomin til viðræðna.
Byggðaráð Blönduóss tók erindið fyrir á fundi sínum þann 4. júlí sl. Byggðaráð er hlynnt sameiningu sveitarfélaga á Norðurlandi vestra og telur nauðsynlegt að fækka sveitarfélögum til að styrkja sveitarstjórnarstigið á svæðinu. Eftirfarandi bókun var samþykkt á fundinum: „Byggðaráð telur ástæðu til að sveitarstjórnir í A-Hún ræði erindið á sameiginlegum fundi sveitarstjórna í A-Hún þar sem sameining sveitarfélaga, þar með talin framangreint verði til umfjöllunar. Dagsetning slíks fundar er fyrirhuguð fimmtudaginn 24. ágúst.“
Sveitarstjórn Húnavatnshrepps tók málið einnig fyrir á fundi sínum þann 5. júlí sl. Telur sveitarstjórn ástæðu til að sveitarstjórnir í Austur-Húnavatnssýslu ræði erindið sameiginlega.
Þá tók sveitarstjórn Skagastrandar erindið fyrir á fundi sínum þann 29. júní eins og áður hefur verið greint frá á Feyki.is. Taldi sveitarstjórn ástæðu til að sveitarstjórnir í A-Húnavatnssýslu ræddu erindið sameiginlega.