Svf. Skagafjörður fær 10 millj. frá EBÍ
Á fundi byggðaráðs svf. Skagafjarðar fyrir skömmu var lagt fram til kynningar bréf frá Eignarhaldsfélagi Brunabótarfélags Íslands, þar sem fram kemur að ágóðahlutagreiðsla sveitarfélagsins nemur 10.068.000 kr. árið 2010.
Sveitarfélagið Skagafjörður er eitt aðildarsveitarfélaga Eignarhaldsfél. Brunabótafélags Íslands sem á töluverðar eignir og frá árinu 1998 hefur EBÍ greitt til sveitarfélaga rúma 3,6 milljarða. Í ár greiðir EBÍ 300 milljónir króna til þeirra. Einn helsti tilgangur EBÍ er að stuðla að eflingu brunavarna og slökkviliða og styðja alhliða forvarnarstarf í sveitarfélögum. Langstærsta verkefnið sem félagið hefur unnið að er forvarnarverkefni í leikskólum landsins þar sem slökkviálfarnir Logi og Glóð leika aðalhlutverkið.
EBÍ hfur fjármagnað vandað fræðsluefni í þessu skyni fyrir öll slökkvilið landsbyggðarinnar frá haustinu 2007. Þá hefur félagið gefið út fræðslubæklinga um eldvarnir heimilanna sem standa slökkviliðum til boða endurgjaldslaust. Að lokum má geta þess að EBÍ er aðili að miklu átaki um eldvarnir heimilanna sem hleypt verður af stokkunum í nóv. n.k.