Sviðamessurnar orðnar 37 á 14 árum - Myndir
Hinar árlegu sviðamessur húsfreyjanna á Vatnsnesi fóru fram í Hamarsbúð um síðustu helgi og helgina þar á undan. Að sögn Kristínar Jóhannesdóttur í Gröf á Vatnsnesi var mætingin heldur minni en oft hefur verið, enda æ fleiri aðilar farnir að standa fyrir sviðamessum. Engu að síður komu rúmlega fimmtíu manns hvert kvöld en sviðamessurnar voru alls þrjár þetta árið. Sviðamessurnar eru nú orðnar 37 á 14 árum.
Á sviðamessu er boðið upp á hinar fjölbreyttustu útfærslur af sviðum, heit og köld svið, strjúpasöltuð svið, sviðalappir, reykta sviðasultu og reykt kviðsvið, ásamt kartöflumús og rófustöppu. Sláturhúsið a Hvammstanga gefur hráefni til húsfreyjanna sem aftur gefa ágóðann til góðgerðarmála í héraði. Veislustjórar voru Magnús Níelsson úr Borgarnesi sem sá jafnframt um tónlistarflutning fyrsta kvöldið, Þorgrímur Guðbjartsson á Erpstöðum í Dölum annað kvöldið og sáu þá Húnvetningarnir Sigurður Ingvi Björnsson og Þorvaldur Pálsson um tónlistarflutning. Þriðja og síðasta kvöldið var Kristín S. Einarsdóttir á Sauðárkróki veislustjóri en Skúli Einarsson á Tannstaðabakka lék undir fjöldasöng.
Meðfylgjandi myndir tóku Kristín S. Einarsdóttir, Rakel Runólfsdóttir og Kristín Jóhannesdóttir sl. laugardagskvöld.