Svo birti aftur til

Nú nýverið var enn eitt popplagið gefið út í þessum heimi okkar. Um er að ræða lagið Svo birti aftur til og er þetta fyrsta lag höfundateymisins Two Spirits Music en teymið skipa lagahöfundurinn Héðinn Svavarsson og Króksarinn Ólafur Heiðar Harðarson, sonur Möggu og Bassa, en hann sér um textagerð. Lagið er nú fáanlegt á öllum helstu dreifiveitum eins og Spotify og iTunes og smellti sér raunar í 26. sæti Vinsældalista Rásar 2 nú í vikunni. Það er söngkonan Jóna Alla sem syngur lagið.

Tónlistaráhuginn er Óla, sem nú býr í Hafnarfirðinum, að sjálfsögðu í blóð borinn en pabbi hans, Hörður G. Ólafsson, jafnan kallaður Bassi, fór hér í denn margan sveitaballarúntinn með Hljómsveit Geirmundar og Herramönnum svo einhverjar sveitir séu nefndar en þekktastur er hann þó sennilega fyrir að hafa samið Eitt lag enn sem hann og Stjórnin fóru með til Zagreb í Eurovision 1990 og gerði lukku.

Feykir plataði Óla til að svara nokkrum spurningum í tilefni af útgáfu Svo birti aftur til. Fyrst var Óli spurður út í nafnið á höfundateyminu. „Ástæðan fyrir enska nafninu á samstarfinu er að þorri laganna [sem við höfum samið] er og mun koma út á ensku. Two Spirits Music er lagahöfundateymi sem varð til í upphafi árs 2019 og hefur síðan samið vel á þriðja tug laga. Við urðum að koma þessu eitthvað út. Þetta staflaðist upp.” 

Hefurðu lengi fengist við textagerð? „Já, ég hef í gegnum árin samið nokkur hundruð texta og á orðið mikinn lager. Verið svona hliðar hobbý að semja. Þá hefur Héðinn einnig alla tíð verið í kringum tónlist og að spila á hljóðfæri (gítar og píanó). Þannig að þarna var eitthvað sem átti að gerast finnst okkur og hefur verið frábært samstarf og bara vinátta. Auðvitað er þetta fyrst og síðast bara skemmtilegt hobbý.” 

En hver er sagan á bak við Svo birti aftur til? „ Saga þessa texta og lags er sú að Héðinn óskaði eftir texta frá mér til að senda inn í keppni um Goslokalagið 2019, enda eyjamaður. Þessi texti tók reyndar ekki langan tíma og small saman á einni klukkustund eftir að kallið kom. Lagið fylgdi síðan á eftir frá Héðni sama kvöld. Flest lögin verða til á einu kvöldi með nokkrum símsendingum. Fá smá hvíld og eru síðan pússuð til og löguð.“ 

Um hvað er textinn? „Svo birti aftur til fjallar um gosnóttina örlagaríku. Atburðarás næturinnar er líst ásamt þeirri von og trú fólksins að endurheimta samfélag sitt að nýju. Síðan er lagið hugsað sem áminning til okkar allra að það er sama hvað á bjátar, það birtir alltaf aftur til. Það endaði þannig að lagið fékk tilboð um útgáfu og útsetningu frá þeim í Eyjum en við ákváðum að gefa það út sjálfir. Fengum í lið með okkur frábæran fagmann til að útsetja, Snorra Snorrason (Idol), og frábæra söngkonu, Jónu Öllu Axelsdóttur.“ Þess má geta að Jóna Alla er ung söngkona frá Akranesi sem m.a. tók þátt í Voice Ísland.

Feykir óskar þeim félögum, Héðni og Óla, lukku á poppbrautinni. Hægt er að hlusta á lagið hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir