Sýning á passíusálmaútgáfum á Hólum í Hjaltadal opnuð í Auðunarstofu í dag

Auðunarstofa/Mynd: holadomkirkja.is
Auðunarstofa/Mynd: holadomkirkja.is

Í ár eru nú liðin 350 ár frá því að Passíusálmar sr. Hallgríms Péturssonar voru fyrst prentaðir árið 1666. Það var í tíð sr. Gísla biskups Þorlákssonar að sú prentun var gerð á Hólum í Hjaltadal og voru sálmar sr. Hallgríms prentaðir aftan við Píslarsálma sr. Guðmundar Erlendssonar.

Frá því þessi prentun var fyrst gerð á Hólum í Hjaltadal hafa komið út afar margar útgáfur af Pássíusálmunum. Ýmist hafa þeir verið prentaðir einir og sér eins og í útgáfunni árið 1800 eða með öðrum kvæðum sr. Hallgríms, sem Grímur Thomsen gerði í útgáfunni 1887. Árið 1947 gaf Magnús Jónsson út bókina Æfi og störf sr. Hallgríms Péturssonar þar sem hann fléttaði inn Passíusálmana.

Í tilefni af því að 350 ár eru liðin frá fyrstu prentun Passíusálmanna hefur verið opnuð í Auðunarstofu á Hólum í Hjaltadal sýning á nokkrum útgáfum Passíusálmanna.

Þar á meðal er fyrsta útgáfan prentuð á Hólum 1666, eintak með gömlu passíusálmalögunum og hátíðarútgáfa frá 1960 með myndum eftir Barböru Árnason. Um þá útgáfu ritaði sr. Sigurbjörn Einarsson biskup í formála: „Það er fyrsta passía í myndum sem vér höfum eignast, en hitt er þó meira, að hún er gerð af frábærri list. Myndir frú Barböru munu jafnan taldar meðal merkustu tíðinda á ferli Passíusálmanna.“ Hörður Ágústsson sá um þessa útgáfu.

Flest þessara eintaka eru úr bókasafni sr. Ragnars Fjalars Lárussonar sem Ríkisstjórn Íslands gaf Hóladómkirkju árið 2006 í tilefni af því að 900 ár voru liðin frá stofnun biskupsstóls á Hólum í Hjaltadal.

Á meðan sýningargestir ganga um sýninguna hljóma passíusálmarnir í hljóðkerfi hússins í flutningi Þorleifs Haukssonar.

Sýningin er í Auðunarstofu á Hólum og er opin alla daga frá kl. 10:00-18:00.  Aðgangur er ókeypis.

Fréttatilkynning

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir