Sýning á útsaumsmyndum Sirríar opnar í dag

Sirrí er margt til lista lagt. MYND AF FACEBOOK
Sirrí er margt til lista lagt. MYND AF FACEBOOK

Í Héðinsminni verður í dag opnuð sýning með útsaumsmyndum Sigríðar Sigurðardóttur sem margir þekkja sem Sirrí í Glaumbæ þó hún sé frá Stóru-Ökrum í Blönduhlíðinni og hætt sem safnstjóri Byggðasafns Skagfirðinga. Á þessari sýningu Sirríar, sem er margt til lista lagt, eru glæsilegar útsaumsmyndir og reflar sem flest eru saumuð með íslenska krosssaumnum.

Í kynningu á sýningunni, á Facebook segir: „Það eru ekki margir sem búa til listaverk með því að sauma út með nál og ullarþræði eins og Sirrí gerir. Myndirnar eru í einkaeigu og margar þeirra segja sögur eigandans. Á sýningunni getum við fengið að njóta og haft gaman af.“

Herdís, ein systra Sirríar og sú sem hefur veg og vanda af sýningarhaldinu, er staðarhaldari í Héðinsmynni og heldur þar úti Áskaffi. Þar verður í dag hægt að gæða sér á heitu súkkulaði og rjómapönnukökum en margir ættu að kannast við bakkelsið hennar Herdísar frá því hún bauð upp á þjóðlegt góðgæti í Áskaffi í Glaumbæ.

Sýningin með útsaumsmyndum Sirríar hefst kl. 14:00 og verður einnig opin þrjá laugardaga í júnímánuði; þá 1.,15. og 22. júní og eftir samkomulagi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir