Sýning á verkum Einars Fals Ingólfssonar í Gallerí Gangi Hofsósi

Verið velkomin !
Á sýningaropnun á verkum Einars Fals Ingólfssonar í Gallerí Gangi, Kárastíg 9, Hofsósi laugardaginn 31. mars nk. kl. 14.
Sýning Einars Fals Ingólfssonar „(Fullt hús) / Tómt hús“ verður opnuð á Ganginum, heimagalleríi Helga Þorgils Friðjónssonar, að Kárastíg 9 á Hofsósi, laugardaginn 31. mars kl. 14-17.

Er um að ræða seinni hluta sýningarverkefnis sem hófst með opnun sýningarinnar „Fullt hús / (Tómt hús)“ á Ganginum, Bolholti 8 í Reykjavík, á dögunum. Á sýningunni á Hofsósi getur að líta verk með rætur í Dalasýslu og í Skagafirði, eins og vera ber þegar litið er til sýningarstaðarins. Meginverkið sprettur af heimsókn breska myndlistarmannsins W.G. Collingwood (1854-1932) að Höskuldsstöðum í Laxárdal 7. júlí sumarið 1897. Vatnslitamynd hans er hér í samtali við verk sem Einar Falur og húsráðandinn Helgi Þorgils gerðu með hana í huga árin 2009 og 1998. Síðar vann Helgi verk um tóma húsið á Höskuldsstöðum og kallar Einar Falur hluta þess hér inn í nýtt verk sitt um sama hús á þessum kunna sögustað úr Njálu og Laxdælu.
Þá getur að líta röð verka Einars Fals úr Skagafirði, af Reykjaströnd, Sæmundarhlíð, við Húseyjarkvísl og úr Dalsplássinu. Allir eru velkomnir á opnun eða síðar þegar húsráðendur eru heima við.

/Fréttatilkynning

Fleiri fréttir