Sýning í Deiglunni í tilefni af afmæli Ness listamiðstöðvar

Frá sýningunni í Deiglunni. Mynd:Vísir.is
Frá sýningunni í Deiglunni. Mynd:Vísir.is

Nú um helgina verður haldin sýning í Deiglunni á Akureyri í tilefni þess að liðin eru tíu ár frá því að Nes listamiðstöð á Skagaströnd opnaði. Á þessum tíu árum hafa um 750 listamenn frá 45 löndum heimsótt listamiðstöðina og unnið þar að listsköpun sinni. Til að fagna tímamótunum hafa 77 fyrrverandi gestalistamenn gefið verk á sýninguna. Rætt var við Signýju Richter á Skagaströnd í Fréttablaðinu í gær en hún hefur verið í stjórn Ness frá upphafi.

Signý segir það hafa verið Hrafnhildi Sigurðardóttur myndlistakonu sem kom listamiðstöðinni á laggirnar með stuðningi frá sveitarfélaginu og Byggðastofnun. Signý segir að listamiðstöðin, sem er staðsett í miðjum bænum, hafi blómstrað alla tíð.

„Hingað koma oft tíu til fimmtán listamenn í hverjum mánuði og dvelja fjórar vikur. Þeir lífga upp á bæinn, sérstaklega þegar þeir eru með verkefni í skólanum sem krakkarnir taka þátt í. Í lok mánaðar geta allir skoðað hvað þeir hafa verið að gera, það er misjafnlega sýnilegt.

Ein frönsk stúlka byrjaði að mála stór olíuverk, 2x2, ef ekki stærri þegar hún var hér, en hafði áður einbeitt sér að litlum, fíngerðum myndum. Þetta var 2009 og hún hefur verið að mála svona stór verk síðan. Ísraeli sem var vanur þvílíkri mannmergð labbaði hér upp á fjall og lá einn á bakinu í marga klukkutíma í rigningu. Fannst það yndislegt. Oft opnar þetta langt að komna listafólk líka augu okkar heimafólks fyrir fegurðinni hér í kring,“ segir Signý Richter í samtali við Fréttablaðið.

Sýningin í Deiglunni í Listagilinu er opin frá föstudegi til sunnudags milli klukkan 14 og 17.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir