Sýnishorn af innsendum botnum og vísum í Vísnakeppni Safnahúss Skagfirðinga

Gunnar Rögnvaldsson við setningu Sæluviku Skagfirðinga 2023. Mynd: PF.
Gunnar Rögnvaldsson við setningu Sæluviku Skagfirðinga 2023. Mynd: PF.

Eins og fram hefur komið í Feyki voru úrslit Vísnasamkeppni Sæluvikunnar kynnt við setningu Sæluvikunnar 30. apríl sl. Búið er að birta sigurvísurnar en samkvæmt venju voru veitt verðlaun fyrir besta botninn og eins fyrir bestu vísuna þar sem efnistök voru gefin fyrirfram sem að þessu voru tíðar sólalandaferðir Íslendinga og áhrif þeirra á verðbólgudrauginn.

Leitað var til burtfluttra Skagfirðinga um gerð fyrriparta en það voru Sigrún Lárusdóttir á Skagaströnd, frá Neðra Nesi á Skaga, og Ingólfur Ómar Ármannsson, frá Sauðárkróki, sem brugðust ljúfmannlega við þeirri beiðni. Þátttaka var með hreinum ágætum en tæplega 100 vísur bárust eftir 16 höfunda víðsvegar af landinu og gaman að sjá hve margir hagyrðingar sýndu keppninni áhuga, sum nöfnin kunnugleg en önnur ekki.

Hér er sýnishorn af þeim botnum sem komu upp úr umslögunum:

Á bak við „Vorboða“ leyndist Anna Kristín Jónsdóttir frá Mýrarkoti sem botnaði lipurlega og laumaði kunnuglegri endingu í seinni vísunni:

Sólin bjarma landi ljær
ljós og varma glæðir.
Laus við harma lindin tær
létt um barma flæðir.

Léttist brúnin laus við þref
Legg af stað til fjalla.
Inni í bæ ég ekki sef
„óbyggðirnar kalla“.

Garpur hefur verið reglulegur þátttakandi í vínakeppninni en þar var Jón bóndi Gissurarson í Víðimýrarseli höfundur og örlar á rómantík Sæluvikunnar.

Ástarglóðin yljar mér
örar blóðið rennur.
Æskumóður ennþá hér
í mér hljóðum rennur.

Guðmundur Sveinsson á Sauðárkróki, sem notar hið kunnuglega höfundarnafn Kjarval sem væntanlega vísan í stóðhestinn Kjarval frekar en listmálarann.

Ástarglóðin yljar mér
örar blóðið rennur.
Arka hljóður eftir þér
Amors slóðin brennur.

Vor í sálu vekur yl
vetur hopa tekur.
Lifnar gróður lágt við þil
lambagrasið vekur.

Fagurkeri er Alfreð Guðmundsson á Sauðárkróki og hann hefur ef til vill látið hugann kvika á Sæluvikuball í Bifröst á fallegu vorkvöldi:

Sólin bjarma landi ljær
ljós og varma glæðir.
Sína arma opnar mær
ástúð harma græðir.

Gamla grenjaskyttan úr Blönduhliðinni hefur margoft sett sig í þær stellingar sem hér er lýst, en Eyþór Árnason frá Uppsölum er „Skyttan“.

Léttist brúnin laus við þref
legg af stað til fjalla.
Leita eftir lúmskum ref
sem laumast eftir hjalla.

Hrúturinn, Pétur Stefánsson, sem er afkastamikill hagyrðingur ættaður úr Sléttuhlíðinni, sendi inn margar útgáfur og var á svipuðum „veiðislóðum“ og Eyþór:

Léttist brúnin laus við þref
legg af stað til fjalla.
Ef ég minkum mæti og ref
myndi ég skjóta alla.

Léttist brúnin laus við þref
legg afa stað til fjalla.
Hress og kátur á mig ef
óbyggðirnar kalla.

En hann lét líka fylgja með annan kveðskap og má til með að birta þessa ljómandi góðu „heimþráarvísu“ af dýrari gerðinni:

Grónir hagar, glæst er sýn
grænn og fagur svörður.
Andinn slagar oft til þín
elsku Skagafjörður.

Það var greinilegt að ummæli Ásgeirs seðlabankastjóra, um tíðar sólarlandaferðir Íslendinga og sífeldar myndir af sólvermdum tám á samfélagsmiðlum, voru tilvalið yrkisefni.

Alli Munda var einn af þeim sem spreytti sig:

Landinn títt á Tene fer,
taumlaust bruðlið stækkar.
Eyðsluseggur okið ber,
Ásgeir vexti hækkar.

Ingólfur Ómar eða Gustur fann þessum hugrenningum stað:

Á Tene landinn tíðum fer
teygar sólargeisla.
Er merki um að mælist hér
mikil einkaneysla.

Guðmundur Einarsson sér fyrir að einhverjir fleiri en Ásgeir velti fyrir sér efnahagsáhrifum sólarlandaferðanna:

Ráðvilltir í raunum hósta
ráðamenn í sölum þinga.
Til að stöðva tíða pósta
tásumynda Íslendinga.

Pétur Stefáns var með mjög ákveðnar skoðanir fyrir hönd Ásgeirs.

„Ef þið farið trekk í trekk
á Tenerrife með flugi.
Mun ég hækka villivekk
vexti um nokkra tugi.“

Svo var það Lýtingurinn Elínborg Erla Ásgeirsdóttir sem velti því fyrir sér hvort Íslendingar eigi ekki bara skilið að fá birtu í sál og sinni að afloknum hremmingum heimsfaraldursins.

Mörgum hefur hugnast best
að hunsa Ásgeirs þanka.
Nú veirulúin veðja flest
á vexti í Gleðibanka.

/Gunnar Rögnvaldsson

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir