Tækifæri til sóknar í Húnaþingi vestra

Í Húnaþingi vestra hefur alltaf verið gott að vera en betur má ef duga skal. Síðustu fimmtán ár hef ég komið reglulega heim og haldið góðum tengslum við mitt fólk hér á svæðinu, hvort sem það er með heimsókn á Hvammstanga í foreldrahús eða í sumarbústað í Vesturhópinu.

Þegar ég áttaði mig á því að ég hafði prófað flest það sem ég hafði áhuga á í Reykjavík og tækifærið á að koma heim og hitta alla gömlu vinina sem voru búnir að skila sér heim, þá greip ég það. Samfélagið hérna býður upp á svo margt sem ekki er í boði annars staðar að það er hreinlega fallegt. Heimsóknirnar, ferðirnar og allt hitt á einu ári eftir heimkomu, það er alltaf eitthvað um að vera. Þetta er samfélag sem ég vil búa í og ég held að fleiri vilji koma hingað og setjast hér að.

Hins vegar vil ég sjá sveitarfélagið gera betur, það eru of margir hlutir sem við erum eftir á með. Við í N - listanum viljum frisbígolfvöll strax upp í Hvamm. Ef samfélagið vill fá völlinn þá gerum við völl! Ef fólk þarf að hjálpast að, þá hjálpumst við að! Þetta er afþreying sem nýtist heimamönnum, ferðamönnum og hægt er að setja upp víðsvegar í sveitarfélaginu!

Aðstöðuhúsleysið fyrir íþróttaiðkun í fótbolta og frjálsar íþróttir er bagalegt, sú vinna er komin í gang en það þarf að tryggja að sveitarfélagið styðji við íþróttafélögin hér svo slíkt aðstöðuhús rísi. Íþróttafélögin þurfa að kafa djúpt í grunnhugmyndafræðina hjá sér og þar þarf fólk að hjálpast að til að hús rísi. Þannig þurfa íþróttafélögin að koma með sjálfboðaliðavinnu að borðinu eins og tíðkaðist hér forðum daga þegar mörg mannvirki risu. Til þess að okkar sveitarfélag geti boðið upp á þjónustu á hæsta stigi þurfum við öll að hjálpast að. Sveitarfélagið þarf þá á sama tíma að koma með fjármagn svo hægt verði að reisa viðunandi aðstöðuhús svo iðkendur hér á svæðinu hafi sambærilega aðstöðu við sína íþróttaiðkun og aðrir krakkar á Íslandi.

Við höfum engan fjölnota klefa í Íþróttamiðstöð Húnaþings vestra fyrir fatlaða eða aðra með sérþarfir. Hleðslustöðvar fyrir rafmagnsbíla eru komnar út um allt land en engin sjáanleg á Hvammstanga, enn eitt dæmið um það þar sem við erum á eftir öðrum. Dæmin eru nokkur þar sem við erum hreinlega á eftir og úr því þarf að bæta svo sveitarfélagið standist nútímakröfur þess samfélags sem við búum í á Íslandi. Allar framkvæmdir telja, um leið og eitt klárast þá margfaldast það í virði fyrir sveitarfélagið allt. Húnaþing vestra á ekki að vera eftirbátur annarra sveitarfélaga á þessum sviðum né öðrum. Því þarf ungt fólk að hafa rödd sem tekið er eftir í sveitarstjórnarmálum Húnaþing vestra og ekki er hægt að bóka bara og ýta til hliðar, heldur þarf ungt fólk að hafa atkvæðisrétt í sveitarstjórn. Setjum x við N þann 14. maí og fáum ungt fólk til ábyrgðar!

Þorgrímur Guðni Björnsson
2. sæti N – listans í Húnaþingi vestra

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir