Tæplega 2/3 þátttakenda kusu að fá sorpið sótt heim

MYND AF SÍÐU SKAGAFJARÐAR
MYND AF SÍÐU SKAGAFJARÐAR

Að undanförnu hefur staðið yfir íbúakönnun um sorpmál í dreifbýli Skagafjarðar þar sem valið var milli tveggja valkosta. Könnuninni lauk sl. föstudag. Valið stóð á milli þess að íbúar í dreifbýli Skagafjarðar skili flokkuðu heimilissorpi á móttökustöðvar í sveitarfélaginu eða að heimilissorp verði sótt á öll lögheimili í dreifbýli Skagafjarðar. Á kjörskrá var 671 en kosningaþátttaka reyndist 25% og af þeim kusu 64% að láta sækja sorpið heim.

Fram kemur í frétt á Skagafjörður.is að þátttökurétt höfðu allir eigendur íbúða og íbúðahúsnæðis með lögheimilisfesti í dreifbýli Skagafjarðar. Kynningarbæklingur um fyrirkomulag sorphirðu ásamt þeim valkostum sem í boði voru var sendur á öll heimili í dreifbýli Skagafjarðar ásamt því að hægt var að afla sér allra upplýsinga á heimasíðu sveitarfélagsins. Einnig voru haldnir íbúafundir í Varmahlíð og á Hofsósi og báðum fundum streymt á Facebooksíðu sveitarfélagsins.

Alls tók 171 einstaklingur þátt í könnuninni en kosningin fór fram á Betra Ísland dagana 29. júní til 8. júlí. Um leiðbeinandi könnun var að ræða og mun sveitarstjórn Skagafjarðar í kjölfarið rýna niðurstöðuna og taka ákvörðun um framhaldið. Stefnt er að bjóða út sorphirðu í dreifbýli Skagafjarðar við fyrsta tækifæri en bjóða þarf út á öllu evrópska efnahagssvæðinu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir