Tap gegn Dalvík Reyni á Hvammstanga

Borja Lopez Laguna fagnar marki eftir vítaspyrnu sem kom gestunum í forystu. Skjáskot af Aðdáendasíðu Kormáks.
Borja Lopez Laguna fagnar marki eftir vítaspyrnu sem kom gestunum í forystu. Skjáskot af Aðdáendasíðu Kormáks.

Í gær tók lið Kormáks Hvatar á móti nágrönnum sínum í Dalvík Reyni, sem daðra við toppsætið í deildinni. Á stuðningsmannasíðu Húnvetninganna sagði fyrir leik að hann yrði snúinn, þar sem Kormákur Hvöt væri með marga fjarverandi, „en við gefum þeim hörkuleik engu að síður“.

Og það varð raunin enda segir á síðu stuðningsmannanna að í fyrri hálfleikur hafi einkennst af barningi á barning ofan en eitthvað virðist dalvískur dómari leiksins hafa angrað skrifara sem segir sem það virðist sem svo að hann geti bara bent í norður. „Vonandi heldur hann því áfram í seinni hálfleik og við fáum eitthvað“. Þrátt fyrir mikla baráttu hafði hvorugu liðinu tekist að skora áður en flautað var til hálfleiks.

Ekki skoraði dómari leiksins hátt hjá tíðindamanni aðdáendasíðunnar sem sagði hann hafa kórónað frammistöðu sína með því að dæma glórulaust víti en línuvörðurinn hafði kallað horn. Borja Lopez Laguna tók vítið og setti boltann framhjá Stefáni Stefánssyni í marki heimamanna. Eftir markið reyndist allur vindur úr Húnvetningum og Dalvíkurliðið gekk á lagið því rúmlega korteri síðar höfðu tvö mörk gestanna bæst við með mörkum Halldórs Jóhannessonar og fyrrnefndum Borja Lopez og staðan allt í einu orðin 0-3. Skömmu síðar virtist sem Kormákur Hvöt hefði minkað muninn þegar Benjamín Gunnlaugarson komst einn inn fyrir og kemur boltanum í markið. „En nei, dómarinn dregur upp úr hatti sínum næsta þvaður og segir rangstæðu,“ skrifar tíðindamaður leiksins „Alveg hreint ömurleg frammistaða frá dómaranum, en okkar menn fá stórt hrós fyrir að mæta til leiks og gefa Dalvík hörku hörku leik.“ Ekki var meira skorað og því 0-3 tap heimamanna.

Þegar fjórir leikir eru eftir situr Kormákur Hvöt í 9. sæti þriðju deildar með 20 stig og baráttan heldur áfram um tilveruréttinn í deildinni. Næstir koma ÍH menn með 17 stig og Vængir Júpiters með 16 en á botninum situr KH með 14 en þessi lið hafa spilað einum leik meira en Húnvetningar og geta því ekki unnið sér inn fleiri en 9 stig það sem eftir lifir tímabilsins. Til þess að vera öruggir uppi þurfa Húnvetningar a.m.k. tvo sigra sem vonandi koma.

Áfram Kormákur Hvöt!

Sjá tölfræði KSÍ HÉR

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir