Tap gegn spræku B-liði Keflvíkinga

Tess var best í liði Tindastóls í gær, gerði 35 stig og ýmislegt fleira. Hér er hún í leik gegn Skallagrími á undirbúningstímabilinu. MYND: HJALTI ÁRNA
Tess var best í liði Tindastóls í gær, gerði 35 stig og ýmislegt fleira. Hér er hún í leik gegn Skallagrími á undirbúningstímabilinu. MYND: HJALTI ÁRNA

Það er óhætt að fullyrða að hvergi á landinu sé staðið jafn glæsilega að körfubolta kvenna og í Keflavík. Þar virðist nánast endalaus uppspretta efnilegra körfuboltastúlkna. Lið Tindastóls heimsótti Suðurnesið í gær og mátti þola tap í Blue-höllinni. Leikurinn var þó jafn og spennandi en heimastúlkur reyndust sterkari og unnu leikinn með tíu stiga mun, 82-72.

Lið Tindastóls hóf leikinn af krafti og voru yfir, 4-9, eftir þrjár og hálfa mínútu. Þá skelltu heimastúlkur í lás og náðu 10-0 kafla og náðu þar með yfirhöndinni í leiknum og héldu forystunni til leiksloka. Staðan að loknum fyrsta leikhluta var 22-17 og munurinn var jafnan 5-10 stig framan af öðrum leikhluta. Stólastúlkur voru að sjálfsögðu ekkert á þeim buxunum að gefast upp og Telma Ösp minnkaði muninn í þrjú stig, 35-32, þegar rúm mínúta var til leikhlés en þristur frá Söru Lind í liði heimastúlkna sá til þess að sex stigum munaði í hálfleik. Staðan 38-32.

Fyrstu mínútur síðari hálfleiks var allt stál í stál og jafnan munaði 3-5 stigum. Tess setti niður tvö víti og staðan var 43-40 þegar þrjár og hálf var liðin af þriðja leikhluta og Marín Lind gerði fjögur stig á skömmum tíma og minnkaði aftur í þrjú stig, 51-48, þegar þrjár mínútur voru eftir af leikhlutanum. Þá tóku Keflvíkingar leikhlé og réðu ráðum sínum og náðu í kjölfarið 11-0 kafla sem gerði út um leikinn. Staðan var 59-48 fyrir fjórða leikhluta og mest náðu heimastúlkur 14 stiga forystu. Stólastúlkur náðu að minnka muninn í sjö stig, 75-68, með körfu frá Telmu Ösp þegar tæpar tvær mínútur voru eftir en nær komust þær ekki og lið Keflavíkur fór því með sigur af hólmi.

Tess Williams var best að vanda með 35 stig og níu fráköst. Telma Ösp var með 12 stig og tíu fráköst og Marín Lind gerði ellefu stig og fékk að venju fimm villur ;o). Í liði Keflvíkinga voru Anna Ingunn og Eydís Eva bestar með 21 stig hvor. Liðin voru ekki í stuði fyrir utan 3ja stiga línuna, Keflvíkingar settu niður 5 í 32 skotum en lið Tindastóls 3 í 15. 

Næstkomandi laugardag kemur lið Njarðvíkur í heimsókn og hefst leikurinn kl. 16:00. Liði Njarðvíkur var spáð efsta sæti í 1. deild af þjálfurum, fyrirliðum og formönnum liðanna sem þátt taka í deildinni. Liði Tindastóls var spáð þriðja sæti en Keflavík b því fimmta. Það getur allt gerst í körfunni. Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir