Tap gegn toppliði Fjölnis

Árni og Stólastúlkur ráða ráðum sínum gegn Fjölni fyrr í vetur. MYND: HJALTI ÁRNA
Árni og Stólastúlkur ráða ráðum sínum gegn Fjölni fyrr í vetur. MYND: HJALTI ÁRNA

Kvennalið Tindastóls hélt áfram þrautagöngu sinni á árinu 2020 þegar stelpurnar heimsóttu topplið Fjölnis í Grafarvoginum sl. laugardag. Eftir ágætan fyrsta leikhluta Tindastóls náðu heimastúlkur að búa til gott forskot fyrir hlé og það reyndist þeim ekki mikið vandamál að sigla heim sigrinum. Lið Tindastóls er því enn án sigurs á árinu. Lokatölur 93-66.

Jafnt var á flestum tölum fyrstu mínúturnar en Stólastúlkur sigu aðeins fram úr um miðjan fyrsta leikhluta. Lið Fjölnis náði þó yfirhöndinni áður en leikhlutinn var úti og staðan 21-18. Heimastúlkur náðu 14-0 kafla í upphafi annars leikhluta en það tók þá lið Tindastóls rúmar fjórar mínútur að finna körfuna. Þá var staðan orðin 35-18 og gamla góða brekkan orðin ansi brött. Stólastúlkur héldu í horfinu fram að hléi en þá stóðu leikar 46-30.

Lið Fjölnis hélt áfram að auka muninn í þriðja leikhluta með erlendan leikmann sinn, Ariel Hearn, í miklu stuði en hún gerði 19 stig, tók 12 fráköst og átti 10 stoðsendingar í leiknum auk þess sem hún stal boltanum átta sinnum. Staðan að loknum þriðja leikhluta var 76-50. Í fjórða leikhluta varð munurinn á liðunum mestur 33 stig en á lokamínútunum náðu Stólastúlkur aðeins að klóra í bakkann og lokatölur sem fyrr segir 93-66.

Tessondra Williams var stigahæst í liði Tindastól með 26 stig og hún var einnig með flest fráköst Stólastúlkna eða níu talsins. Marín Lind gerði 11 stig, Karen Lind 10, Telma Ösp 6 og aðrar voru með færri stig. Í lið Tindastóls vantaði enn Kristínu Höllu og Valdísi Ósk. Hvorugt liðanna var í stuði utan 3ja stiga línunnar en innan hennar gekk heimastúlkum talsvert betur að hitta körfuna. Lið Fjölnis fékk 27 vítaskot í leiknum en lið Tindastóls 5! Þá unnu heimastúlkur frákastabaráttuna nokkuð örugglega 48/35.

Sem fyrr segir þá var Kristín Halla ekki með en hún hefur glímt við meiðsli að undanförnu en nú eru það bakmeiðsli sem hrjá hana og óvíst hvenær hún skilar sér til baka á parkettið. Þá er ólíklegt að skyttan Valdís Ósk verði meira með Stólastúlkum á þessu tímabili en hún hefur í tvígang fengið höfuðhögg í vetur og verður að hvíla.

Næstkomandi laugardag á lið Tindastóls heimaleik gegn Keflavík b sem eru í öðru sæti deildarinnar með 24 stig að loknum 18 umferðum. Lið Tindastól er í fimmta sæti af sjö liðum með 16 stigum eftir 19 leiki en leiknar eru 24 umferðir í 1. deild kvenna áður en úrslitakeppnin hefst en lið Tindastóls er að missa af úrslitakeppnislestinni eftir erfitt geng frá áramótum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir