Tap í fyrsta æfingaleik eftir kófpásu

Hugrún gerði mark Tindastóls í dag. MYND: ÓAB
Hugrún gerði mark Tindastóls í dag. MYND: ÓAB

Stólastúlkur halda áfram að undirbúa sig fyrir komandi átök í Pepsi Max deildinni. Eftir þriggja vikna kófpásu hófust æfingar á fullu nú í vikunni og í dag fengu stelpurnar spræka Seltirninga í heimsókn en lið Gróttu spilar í 1. deildinni. Þær reyndust engu að síður sterkara liðið í dag og unnu sanngjarnan 1-3 sigur.

Lið Tindastóls varð fyrir tvöföldu áfalli á fyrstu tíu mínútum leiksins því fyrst þurfti hershöfðinginn Bryndís Rut að fara meidd af velli og skömmu síðar fylgdi Jackie í kjölfarið. Tveir af máttarstólpum liðsins því úr leik, þó meiðsli þeirra hafi sem betur fer ekki virst alvarleg. Fátt var um færi framan af en ákafinn í liði Tindastóls var of mikill í fyrri hálfleik og lítil þolinmæði til að láta boltann ganga. Það hlýtur að vera stefnan að liðið læri að halda boltanum. Grótta komst yfir eftir laglega skyndisókn upp vinstri kantinn, sendu fyrir og boltinn afgreiddur glæsilega í markið, óverjandi fyrir Amber í markinu. Staðan 0-1 í hálfleik.

Í síðari hálfleik reyndi lið Tindastóls að halda boltanum betur en Seltirningar voru stórhættulegar í sínum sóknaraðgerðum, náðu að senda bolta inn fyrir vörn Stólanna trekk í trekk og sköpuðu sér ágæt færi. Þær bættu tveimur mörkum við en á lokakaflanum fékk Mur eitt eða tvo góð færi en það var síðan Hugrún sem klóraði í bakkann með ágætu marki eftir að lið Tindastóls vann boltann framarlega á vellinum.

Svekkjandi tap en Stólastúlkur virkuðu þungar í rigningunni og það gekk alls ekki nógu vel að halda í boltann. Sem stendur virkar lið Tindastóls ansi þunnskipað fyrir átökin í sumar, hópurinn var tvímælalaust breiðari í fyrra, og það hlýtur að vera markmiðið að styrkja hópinn enn frekar. Það er í það minnsta kristaltært að Pepsi Max deildin er sterkari en Lengjudeildin!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir