Tap í Jakanum á Ísafirði

Strákarnir í Tindastól sóttu ekki gull í greipar KFÍ í gærkvöld í fyrsta leik sínum í Iceland Express deildinni. Eftir jafnan fyrri hálfleik, varð þriðji leikhlutinn strákunum erfiður og var engu líkara en að annað lið mætti til leiks í seinni hálfleik.

Fyrri hálfleikur var hreint ótrúlega jafn, en jafnt var á flestum tölum. Mikið var um mistök beggja liða sem skrifast líklega mest á mikla taugaspennu sem virtist einkenna leikmenn í upphafi. Eftir fyrsta leikhluta var staðan 14-14. Bæði lið hresstust aðeins í stigaskorinu í öðrum leikhluta sem lauk 22-22 og staðan því hnífjöfn í hálfleik 36-36.

KFÍ gerði 9 fyrstu stig seinni hálfleiks og allt í einu var staðan orðin 45-36 og munurinn aldrei meiri það sem liðið var af leiknum. Í jöfnum leik, er þetta mikil forysta og heimamenn lögðu í raun grunninn að sigrinum þarna á upphafsmínútum seinni hálfleiks. Staðan eftir þriðja leikhluta var 61-52.

Tindastóll reyndi eins og liðið gat að komast inn í leikinn á nýjan leik en það tókst ekki því miður og lokatölur leiksins 85-70.

Josh Rivers skoraði 18 stig fyrir Tindastól, Kiki setti 14 stig, Halli 12, Helgi Freyr 9, Dimitar 7, Hreinsi og Helgi Rafn 4 stig hvor og Radoslav 2 stig.

Næsti leikur Tindastóls er útileikur einnig, en þá heimsækja strákarnir hina nýliða deildarinnar Hauka, á mánudaginn kemur.

Þess má geta að lokum að drengjaflokkurinn mætir Grindvíkingum í Síkinu í kvöld föstudag kl. 18.00.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir