Telur óvíst að hann sé skrítnasti maðurinn á þingi

Sigurður Örn Ágústsson, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, upplýsti í ræðustól Alþingis í vikunni,  undir liðnum „störf þingsins“ að hann væri greindur einhverfur og væri sennilega fyrsti þingmaðurinn sem væri með slíka greiningu.

Hann sagði þó alls óvíst að hann væri allra skrýtnastur í þingsalnum, eins og greint hefur verið frá á vef RÚV og öðrum vefmiðlum. Sigurður Örn er Austur-Húnvetningur, sonur þeirra Ágúst Sigurðssonar og Ásgerðar Pálsdóttur á Geitaskarði og er varaþingmaður Haraldar Benediktssonar.

Sigurður Örn ræddi mikilvægi greiningarstöðvar ríkisins við upphaf þingfundar á Alþingi. Hann sagði biðlista of langa þar sem snemmtæk íhlutun hafi lengi sannað gildi sitt. Það hefði áhrif á lífsgæði barna og fjölskyldna þeirra.

Sigurður hvatti félagsmálaráðherra til að gera betur og sagði frá því um leið að hann væri sjálfur greindur einhverfur og væri sennilega fyrsti einhverfi alþingismaðurinn nú um þessar mundir. „Ekki er nokkur vafi á því að bæði í fortíð og nútíð hafi starfað hér á þingi fólk með allskonar raskanir.  Og mér sýnist á öllu að það sé alls óvíst að ég sé allra skrýtnastur hér.“

Fleiri fréttir