Tengjast þeirra afrek öll ástum, söng og hestum

Magnús Geir Guðmundsson og Ingólfur Ómar Ármannsson.
Magnús Geir Guðmundsson og Ingólfur Ómar Ármannsson.

Í aðdraganda Sæluviku eru hagyrðingar brýndir til að taka þátt í vísnakeppni Safnahúss Skagfirðinga sem notið hefur vinsælda um áratuga skeið. Keppnin er einföld og í engu breytt út af vananum frá ári til árs. Fjöldi þátttakenda hefur ýmist vaxið eða dalað og alltaf matsatriði hvað mönnum þykir ásættanlegur fjöldi. Í ár reyndu þrettán aðilar við fyrripartana og vísnagerðina.

Að þessu sinni fengu fyrripartasmiðirnir fyrirmæli um að hugsa vestur um haf og hafa Dónald Trump í huga og voru þeir á öndverðum meiði um hvort maðurinn væri til óþurftar fyrir heiminn eða misskilinn snillingur. Hins vegar skyldu þeir setja saman fyrripart sem gæfi góð fyrirheit um vorið sem vonandi verður eins gott og líðandi vetur.

Ein vorvísa fylgdi innsendum botnum sem ekki var tæk í keppnina en vel þess virði að fara með hér þar sem hún gefur ágæt fyrirheit um vorkomuna.

Þiðna móar mildast tíð
minnka snjóalögin.
Bráðum gróa grund og hlíð
grænka flóadrögin.

Vel gerð hringhenda hjá Jóni Gissurarsyni í Víðimýrarseli.

Þá fengu þátttakendur fyrirmæli um að semja vísu um þátt Skagfirðinga í raunverulegum eða ímynduðum afrekum hvers konar. Tvenn peningaverðlaun voru veitt eins og fyrr, annars vegar fyrir besta botninn og hins vegar fyrir bestu vísuna. Enn er það svo að góðar vísur berast í keppnina sem og botnar og þarf talsverða yfirlegu til að velja það sem dómnefndin telur standa upp úr. Það er ekki auðvelt val því margt af því sem berst kemur til greina.

Fyrripartssmiðirnir eru tveir, báðir ættaðir úr Fljótunum, þeir Hreinn Guðvarðarson og Haraldur Smári Haraldsson. Dómnefnd að þessu sinni var skipuð tveimur mönnum, þeim sem hér ritar og Ágústi Guðmundssyni ættuðum frá Skollatungu í Gönguskörðum. Guðbjörg Bjarnadóttir sem sæti á í dómnefnd, átti ekki heimangengt að þessu sinni.

En snúum okkur að alvörunni.

Fyrri partarnir um forseta Bandaríkjanna hljóma svo:

Vitið ekki að vestan hafs
var vitlaus maður kosinn.

Svoleiðis er álit Hreins á valdamesta manni heims. En Smára fannst illa að manninum vegið austan úr Skagafirði og vildi bæta ímynd hans frekar og sagði:

Dæmalaust hvað Dónald er
dagfarsprúður sómi.

Hinn frjálsi fjallasveinn botnaði svo: 

Eflaust gerði ég úr honum smér
ef hann væri rjómi.

Hinn frjálsi fjallasveinn reyndist vera Benedikt Benediktsson á Vatnsskarði.
En Gunnar Rögnvaldsson á Löngumýri sló á bjartsýnina og vildi hafa þetta svona:

Dæmalaust hvað Dónald er
dagfarsprúður sómi.
Innan tíðar ugglaust fer
af sá dýrðarljómi.

Og Ýlustráið, sem Engilráð M. Sigurðardóttir stóð á bak við, jók aftur hróður forsetans.

Dæmalaust hvað Dónald er
dagfarsprúður sómi.
Öðrum mönnum af´ann ber,
eðal kvennaljómi.

Færri reyndu við vitlausa manninn. En Rúnar Kristjánsson á Skagaströnd segir:

Vitið ekki að vestan hafs
var vitlaus maður kosinn.
Hrokastæla og stefnukrafs
stundar framagosinn.

Og ekki veit ég hvort  Hilmir Jóhannesson er að gagnrýna fyrripartinn á vísunni eða bara forsetann sjálfan þegar hann segir:

Vitið ekki að vestan hafs
var vitlaus maður kosinn.
Fyrripartur klúður krafs
klaufalegur frosinn.

Fleiri botnar um Dónald komu inn en mér finnst betra að við snúum okkur að vorinu.

Vorið fyllir vitin mín
vangann strýkur blærinn.
Yljar líkt og eðalvín
allur hlýnar bærinn.

Þessi botn kom frá Jóni Gissurarsyni í Víðimýrarseli.

Ekki veit ég hvort Alfreð Guðmundsson á Sauðárkróki sé að hugsa um gróðurhúsaáhrifin er hann botnar svo:

Vorið fyllir vitin mín
vangann strýkur blærinn.
Þá hærra sól á himni skín
hlýnar jörð og særinn. 

Og svo frá Gunnari Rögnvaldssyni.

Vorið fyllir vitin mín
vangann strýkur blærinn.
Bráðum geta börnin mín
berað á sér lærin.

Reynir Hjörleifsson, sem ættaður er frá Kimbastöðum, segir:

Vorið fyllir vitin mín
vangann strýkur blærinn.
Hugans gull er sólarsýn
af sindri glitrar særinn.

En Ingólfur Ómar Ármannsson slær botninn í þennan fyrripart svona:

Vorið fyllir vitin mín
vangann strýkur blærinn.
Grösin anga, glóey skín
gliti skartar særinn.

Þá snúum við okkur að hinum fyrripartinum um vorið.

Víst ég yrkja vildi helst
um vor í Skagafirði.
-efa þó hvort iðjan telst
ýkja mikils virði.

Þetta sagði Engilráð Sigurðardóttir en ekki skal efast um hennar hæfileika til vísnasmíði.
Og Lína í Kleifartúni, sem er nú kannski kunnari sem Lína á Deplum, botnar svo:

Víst ég yrkja vildi helst
um vor í Skagafirði.
Í sólarljósi lífið felst
það lán er mikils virði.

Og Hjalti Þórðarson hugsar um útiveruna sem fylgir vorinu og líklega rýkur fótgangandi á fjöll áður en langt um líður.

Víst ég yrkja vildi helst
um vor í Skagafirði.
Skóna virkja skylda telst
og sporin braga virði.

Rúnar Kristjánsson segir:

Víst ég yrkja vildi helst
um vor í Skagafirði.
Þar sem öll sú fegurð felst
sem fólki er mikils virði.

Og Pétur Stefánsson úr Reykjavík, sem mér skilst að reki ættir sínar í Sléttuhlíðina, yrkir svo:

Víst ég yrkja vildi helst
um vor í Skagafirði.
Til afreka það ekki telst
en er þó mikils virði.

Fínar vísur bárust í keppnina um afrek Skagfirðinga og ríður Hilmir Jóhannesson á vaðið.

Upp skal vekja enn á ný
afrek fyrri tíða.
Bændur voru bestir í
brugga, syngja og ríða.

Geri ég þá fastlega ráð fyrir því að hann sé bara að tala um útreiðar, annars væri hún of dónaleg til að fara með í svo virðulegu blaði. 
Magnús Geir Guðmundsson á Akureyri gerir grein fyrir sjálfum sér svona.

Á afreks- sanna velli verka,
vísna- á ég sögu merka.
Í ættum fáa kenni klerka
en kominn er af Hrólfi-Sterka.

Ég varð að gúggla þennan sterka Hrólf en þannig er m.a. ritað um hann á Snerpu: „Hrólfur Bjarnason hinn sterki hét maður í Skagafirði. Er ættleggur mikill frá honum kominn og er hann kallaður Hrólfsætt. Auk annarra barna átti Hrólfur tvo Bjarna fyrir sonu; var annar kallaður Verri-Bjarni, en annar Betri-Bjarni.“ Ekki veit ég hvort Magnús sé af öðrum þeirra kominn.

Pétur Stefánsson kann að lýsa yfirburðum Skagfirðinga. 

Það er kunnugt vítt um völlu
og veldur ýmsum líðan sárri,
að Skagfirðingar eru í öllu
utan vafa flestum skárri.

Og ekki er það verra hjá Gunnari Rögnvaldssyni: 

Um það vitna verkin öll
að vann þau smiður slyngur.
Sólargeislar, grundir, fjöll,
Guð var Skagfirðingur.

Ekki er hægt annað en að lesa hér upp eina limru sem barst, enda fjallar hún um okkar ágætu Sæluviku, eða í það minnsta hvernig Benedikt á Vatnsskarði sér  Skagfirðinga haga sér í þeirri gleðiviku.

Á „Sælu“ menn sækja í glauminn
og sumir sjá rætast þar drauminn.
Þeir fullir af losta
þar miklu til kosta.
Nú losa skal talsvert um tauminn.

En dregur nú til tíðinda því komið er að því að upplýsa hverjir áttu besta botninn og bestu vísuna. 
Besti botninn að mati dómnefndar er eftirfarandi.

Vorið fyllir vitin mín
vangann strýkur blærinn.
Fegurst er vor fjallasýn
og fallegastur bærinn. 

Verðlaun fyrir þennan botn fær Magnús Geir Guðmundsson á Akureyri.

Besta vísan að mati dómnefndar er á þessa leið.

Bera gnægð á Bragavöll
búnir kostum flestum.
Tengjast þeirra afrek öll
ástum, söng og hestum.

Það er hinn kunni hagyrðingur sem bjó hér á Sauðárkróki forðum, Ingólfur Ómar Ármannsson, sem lýsir Skagfirðingum svo ágætlega.

Þessum heiðursmönnum er óskað til hamingju með verðlaunin og öðrum þökkuð þátttakan.

Áður birst í 18. tbl Feykis.

Fleiri fréttir