Það er gott að vinna

Taiwo Badmus og félagar komu sterkir til baka eftir strembin áramót. MYND: HJALTI ÁRNA
Taiwo Badmus og félagar komu sterkir til baka eftir strembin áramót. MYND: HJALTI ÁRNA

Tindastólsmenn settu í fjórða gírinn í kvöld og brunuðu yfir Öxnadalsheiðina alla leið til Akureyris þar sem íþróttakarl Þórs, Ragnar Ágústsson, og félagar hans biðu spenntir eftir Stólunum. Þórsarar gerðu sér lítið fyrir á dögunum og lögðu jójólið Grindavíkur óvænt í parket og náðu þar sínum fyrsta sigri í vetur. Þeir ætluðu væntanlega að endurtaka leikinn í kvöld en þeim varð ekki kápan úr því klæðinu. Leikurinn var spennandi og baráttan í algleymingi eins og í sönnum grannaslag en Stólarnir náðu vopnum sínum þegar á leið og hleyptu heimamönnum ekki inn í leikinn á lokakaflanum. Lokatölur 91-103.

Óhætt er að fullyrða að stuðningsmenn Stólanna hafi haft nokkrar áhyggjur af sínum mönnum eftir tvo erfiða tapleiki gegn Keflavík og Þór Þorlákshöfn fyrir jólin. Þegar liðið ætlaði síðan að slípa demantinn yfir jól og áramót urðu leikmenn fyrir Covid-kjaftshöggi og náðu sinni fyrstu alvöru æfingu loksins sl. fimmtudag. Mussamba var skilað heim um áramótin og í hans stað er kominn Zoran Vrkic en hann var ekki með í kvöld.

Tindastólsmenn hófu leikinn af krafti og komust í 5-12 eftir þrist frá Arnari eftir rúmlega þriggja mínútna leik. Heimamenn í Þór snéru leiknum sér í vil og komust yfir 15-14 þremur mínútum síðar. Þeir höfðu síðan frumkvæðið það sem eftir lifði fyrsta leikhluta og leiddu 26-22 að honum loknum. Bess, sem átti góðan leik í kvöld, minnkaði muninn í eitt stig snemma í öðrum leikhluta og kom síðan Stólunum yfir, 31-32. Leikurinn var í járnum fram að hléi og liðin skiptust á um að hafa forystuna en Skagfirðingarnir voru einu stigi yfir í hálfleik, 46-47, eftir að Taiwo, sem sömuleiðis átti hörkuleik, setti niður eitt víti.

Þórsarar höfðu undirtökin fyrstu fimm mínútur þriðja leikhluta en munurinn yfirleitt eitt til fjögur stig. Bess jafnaði leikinn 61-61 og í kjölfarið kom þristur frá Arnari og frumkvæðið færðist yfir til gestanna. Bess sá til þess að Stólarnir héldu forystunni með tveimur þristum. Ragnar Ágústs minnkaði muninn í 68-70  fyrir sína menn í Þór þegar um hálf mínúta var eftir af þriðja en Viðar bróðir hans svaraði með þristi. Pétur náði í framhaldinu að stela boltanum af Keely og átti síðan stoðara á Bess sem negldi niður þristi rétt fyrir lok þriðja leikhluta og staðan skyndilega orðin 68-76.

Þórsurum haldið frá nammipokanum í lokafjórðungnum

Taiwo jók muninn í tíu stig snemma í lokafjórðungnum og hann var drjúgur fyrir Stólana á þessum kafla. Þórsarar komu muninum niður í sex stig, 79-85, þegar rúmar sex mínútur voru eftir en stuttu síðar fékk Dúi Jóns dæmt á sig tæknivíti og þar sem hann hafði áður fengið dæmda á sig óíþróttamannslega villu var honum vikið út úr húsi - og krækti í annað tæknivíti fyrir sitt lið á leiðinni út! Bess skilaði vítunum rétta leið og Stólarnir náðu fljótlega að auka muninn í 14 stig. Þórsarar gáfust ekki upp en lið Tindastóls var ekkert á þeim buxunum að leggjast í lazyboyinn og hleypa heimamönnum í nammipokann – sigldu bara einbeittir mikilvægum mórölskum sigri í örugga höfn.

Þórsarar tóku örlítið fleiri skot í kvöld og fráköstuðu betur (46/39) auk þess sem þeir fengu talsvert fleiri villur (27/19) og komust gestirnir því töluvert oftar á vítalínuna. Í liði Tindastóls var Taiwo í stuði og gerði 30 stig, tók sjö fráköst og fiskaði tíu villur á Þórsarana. Bess var stigahæstur með 34 stig og hann skilaði sömuleiðis sjö fráköstum. Sigtryggur Arnar gerði 15 stig og átti sjö stoðsendingar og þá gerði Pétur sjö stig, tók sjö fráköst og átti ellefu stoðsendingar. Í liði Þórs voru Atle Ndiaye og Reginald Keely stigahæstir með 32 og 24 stig en Keely hirti einnig 14 fráköst.

Nú á föstudaginn halda Stólarnir að Hlíðarenda þar sem lundléttir Valsmenn bíða eftir þeim en svo fáum við loks heimaleik 20. janúar. Þá koma KR-ingar norður í Síkið. Áfram Tindastóll!

Tölfræði af vef KKÍ >

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir