„Það kostar skipulagningu, en þessi störf fara vel saman“
Skagfirðinginn Geirmund Valtýsson þekkja flestir landsmenn. Sveitastrákinn sem heitir í höfuðið á býlinu þar sem hann ólst upp og er í dag sjálfur með búskap. Fjármálastjórann sem hefur unnið hjá KS í 38 ár og er ekkert að hætta þó hann sé nýlega orðinn sjötugur. Tónlistarmanninn sem ennþá þeytist um landið og spilar um hverja helgi og hefur alltaf jafn gaman af.
Segja má að hljómsveit Geirmundar hafi strax slegið í gegn, árið 1972 kom út tveggja laga plata með laginu „Bíddu við.“ Gefin var út önnur tveggja laga plata, en hún innihélt lagið „Nú er ég léttur.“ Bæði lögin slógu í gegn og fór hljómsveitin að spila um allt land. Um nokkurra ára skeið, upp úr 2000, hélt Geirmundur úti tveimur hljómsveitum, einni norðan heiða og annarri sunnan heiða. „Strákagreyin þeir þreytast, á öllum þessum ferðalögum,“ segir hann og glottir, enda sjálfur óþreytandi á að þeysast um landið. Núorðið segir hann þó hljómsveitirnar tvær vera að renna aftur saman í eina.
Geirmundur Valtýsson er í opnuviðtali Feykis í dag.