Þegar orð og athafnir fara ekki saman - Lárus Ægir Guðmundsson skrifar

Þann 15. janúar 2004 skrifaði Jón E. Friðriksson þá stjórnarformaður Fisk eignarhaldsfélags  ehf. undir viljayfirlýsingu vegna kaupa Fisk á Skagstrendingi hf. Fulltrúar Höfðahrepps, Adolf H. Berndsen oddviti og Magnús B. Jónsson sveitarstjóri, lýstu stuðningi við meginmarkmið yfirlýsingarinnar enda var hún jákvæð fyrir atvinnulífið á Skagaströnd. Báðir bankastjórar Landsbankans sem sá um söluna, þeir Halldór J. Kristjánsson og Sigurjón Þ. Árnason, lýstu yfir að þeir hefðu unnið að og styddu yfirlýsinguna.

Af eigin frumkvæði skrifa ég þessa grein en sem íbúa á Skagaströnd rennur mér mjög til rifja hvernig komið er fyrir atvinnulífinu þar og um leið kauptúninu sjálfu. Það er þegar orðið og stefnir að óbreyttu í mjög erfitt ástand ef ekki verður veruleg breyting hér á.

Íbúum kauptúnsins hefur fækkað verulega og hér er litla eða enga vinnu að fá fyrir þá sem kynnu að vilja flytja hingað og allnokkrir sækja nú þegar vinnu í burtu vegna atvinnuástandsins. Vegna skorts á atvinnutækifærum fækkar fólki, meðalaldur fólks hækkar í kauptúninu, barnsfæðingum fækkar, færri börn í leikskóla og grunnskóla, þjónusta minnkar og frumkvæði heimamanna dofnar.

Stærsti áhrifaþátturinn í þessu ástandi er hvernig fyrirtækið Fisk Seafood hefur smám saman hætt allri starfsemi á Skagaströnd.

Í fyrrgreindri viljayfirlýsingu stendur eftirfarandi orðrétt.

1.       „Báðum aðilum er í huga sú ríka ábyrgð sem hvílir á eigendum Skagstrendings hf. sem stærsta atvinnurekandans á Skagaströnd. Besta trygging hvers byggðarlags er öflugur rekstur þeirra fyrirtækja sem eru máttarstópar atvinnulífsins heima fyrir. Enginn rekstur Fisk er á Skagaströnd.
2.       „Við þessi eigendaskipti verður félagið rekið sem sjálfstætt félag með núverandi heiti og með stjórnendur starfslið og skrifstofuhald (m.a. bókhald og launauppgjör) í samræmi við þá stöðu.“  Ekkert skrifstofuhald er á Skagaströnd.
3.       „Náið samstarf Fisk ehf. og Skagstrendings hf. er ein forsenda þess að landssvæðið geti dafnað og byggst upp af nýjum þrótti til framtíðar. Saman hafa fyrirtækin yfir að ráða 20 þúsund þorskígildum og hafa alla burði til að takast á við ný verkefni og breytingar í umhverfi auk þess að verða það hreyfiafl sem landshlutinn þarf svo nauðsynlega á að halda.“ Fisk er ekki að neinu leyti jákvætt hreyfiafl á Skagaströnd og öll áhersla er lögð á Sauðárkrók.
4.       „Frystitogarinn Arnar verður gerður út með svipuðum hætti og verið hefur þ.m.t. er fyrirkomulag landana.“ Núna landar Arnar á Sauðárkróki og afla- og hafnargjöld fara þangað.
5.       „Stefnt er að því að Örvar eða álíka skip verði gert út frá Skagaströnd annaðhvort á rækju eða bolfisk eða hvort tveggja. Löndun verður þar sem hagkvæmast þykir hverju sinni og í samræmi við það sem verið hefur.“ Engin slík útgerð er frá Skagaströnd á vegum Fisk.
6.       „Sjómenn með lögheimili og búsetu á Skagaströnd verða látnir ganga fyrir um pláss á þeim togurum og/eða bátum sem Skagstrendingur hf.  mun gera út frá Skagaströnd.“ Við þetta hefur verið staðið.
7.       „Ekki eru áform um annað en að reka áfram rækjuverksmiðju á Skagaströnd. Komi til breytinga á rækjuvinnslu er vilji til þess að leita leiða til að auka aðra vinnslu eða koma annarri atvinnustarfsemi í hennar stað.“  Engin vinnsla eða starfsemi af neinu tagi er hjá Fisk á Skagaströnd þótt það hafi lagt niður rækjuvinnsluna og 1600 fermetra hús standi nánast ónotað.
8.       „Heimaaðilar munu ganga fyrir um að þjónusta skip sem Skagstrendingur hf. gerir út frá Skagaströnd sem og rækjuvinnslu félagsins enda verði þjónusta og verðlagning samkeppnishæf. Þetta nær m.a. til vélsmiðju, netaverkstæðis, rafmagnsverkstæðis, löndunarþjónustu, trésmiðju og flutninga.“  Við þetta hefur verið staðið.
9.       „Fisk eignarhaldsfélag ehf. hefur kynnt sér viljayfirlýsingu sem varð til þegar Útgerðarfélag Akureyringa keypti öll hlutabréf í Skagstrendingi hf. árið 2002. Fisk lýsir yfir að það muni virða þau sjónarmið sem fram koma í yfirlýsingunni og ekki eru þegar niður fallin.“ Ekki hefur verið staðið við eitt eða neitt í þessu sambandi.

Þegar Fisk eignarhaldsfélag ehf. keypti Skagstrending var atvinnustarfsemi félagsins á Skagaströnd þessi.

Frystitogarinn Arnar var gerður út frá Skagaströnd
Frystitogarinn Örvar var gerður út frá Skagaströnd 
Rekin var öflug rækjuvinnsla í eigin húsnæði.
Veiðiheimildir upp á 7 - 8 þúsund tonn.

Ég veit auðvitað að viljayfirlýsing er ekki sama og lög eða reglugerð en skilningur minn á orðinu viljayfirlýsing er sá að í huga þeirra sem skrifa undir slíka yfirlýsingu sé vilji til að standa við þau ákvæði sem hún fjallar um.

Það er augljóst að hér hefur ekki verið staðið vel að verki af hálfu Fisk eða móðurfyrirtækis þess KS. Ekki er annað að sjá en það hafi beinlínis verið tekin ákvörðun um að láta undirskrift, efni og tilgang viljayfirlýsingarinnar lönd og leið. Í raun má segja með sanni að Fisk og KS hafi tekið lífsbjörgina í burtu frá Skagstrendingum.

Fisk Seafood og KS hafa yfir miklu fjármagni að ræða og í langan tíma skilað hagnaði upp á nokkra milljarða árlega. Þar hefur ráðið dugnaður og framsýni forystumanna félagsins.

Ljóst er að miklir fjármunir og mikið eigið fé fer um hendur KS og Fisk og í fréttum fjölmiðla má t.d. lesa eftirgreint.

Kaup og sala Fisk Seafood á hlutabréfum Brims á síðasta ári skiluðu 1300 milljóna króna hagnaði á aðeins þremur vikum og voru valin viðskipti ársins af fjölskipaðri dómnefnd Markaðarins. Við þessi viðskipti jókst fiskveiðikvóti Fisk um 10%  eða 2600 tonn.

Á síðasta ári keypti Fisk Seafood þriðjungs hlut í Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum fyrir 9.4 milljarða króna.

Kaupfélag Skagfirðinga sem á Fisk Seafood  vinnur nú að undirbúningi sjálfstæðrar skyrframleiðslu í Kína og fyrirtækið á líka helmingshlut í nýrri 500 milljóna króna skyrverksmiðju í Swansea í Wales sem getur framleitt 7000 tonn af skyri á ári. Þá mun KS fljótlega hefja framleiðslu á miklu magni etanóls úr ostamysu í verksmiðju félagsins á Sauðárkróki.

Fisk Seafood keypti allt hlutafé í Zophanías Cesilsson í Grundarfirði 2018 og hefur nú þegar hafið uppbyggingu m.a. endurnýjun bátaflotans með kaupum á tveimur nýjum skipum.

Eignir KS námu 62,3 milljörðum króna í lok síðasta árs og eigið fé nam 35 milljörðum króna. Fisk Seafood er orðið þriðja stærsta sjávarútvegsfyrirtæki landsins.

Á sama tíma er þetta litla þorp í næsta nágrenni við Sauðárkrók látið blæða út þrátt fyrir þá viljayfirlýsingu sem fyrir liggur og Skagstrendingar treystu á að nágrannar þeirra myndu virða. Það myndi nefnilega gera gæfumuninn ef við hana væri staðið að einhverju því marki sem að gagni kæmi.

Mér finnst að það gæti verið vel við hæfi að stjórnarfólk og framkvæmdastjórar fyrirtækjanna skoði aðeins í huga sinn hvort þessi framgangsmáti gagnvart Skagstrendingum sé sú arfleið sem þau vilja láta raungerast innan þeirra fyrirtækja sem þeim er falin ábyrgð á að stjórna.

Það er kvíði og áhyggjur í hugum Skagstrendinga að hafa horft upp á þessar breytingar á liðnum árum. Mér finnst líklegt, ef hlutverk hefðu hér verið með gagnstæðum hætti, að flestu fólki hefði fundist að svona framkoma Skagstrendinga gagnvart Skagfirðingum væri þeim ekki sæmandi.

Það er ósk mín og von að stjórnendur Fisk og KS taki ákvörðun hið allra fyrsta um að aðstoða Skagstrendinga svo um muni við að ná vopnum sínum á nýjan leik. Þeir hafa alla þræði í höndum sínum, ráða yfir nægu fjármagni, húsakosti og allskonar áhrifum og það eina sem vantar er vilji – vilji til að sýna að undirskrift forystumanna félaganna sé ofurlítið meira virði en það sem nú blasir við.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir