„Þetta kemur allt í litlum skrefum“

Eva Rún með boltann gegn liði ÍR í mars. Stundum eru verkefnin erfið. MYND: HJALTI ÁRNA
Eva Rún með boltann gegn liði ÍR í mars. Stundum eru verkefnin erfið. MYND: HJALTI ÁRNA

„Já, sko páskafríið mitt byrjaði á því að ég fékk ælupest en ég ældi samt bara einu sinni þarna í byrjun frísins. Svo dagana eftir það var ég bara drulluslöpp og hélt að það væri bara eftir þessa ælupest. En ég sé núna að þarna var þetta allt bara byrjað að magnast upp,“ segir Eva Rún Dagsdóttir, 18 ára körfuboltastúlka í liði Tindastóls og nemi við Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra, þegar Feykir spyr hana út í pínu óvenjulega páskahelgi.

Fríið endaði þannig að flogið var með Evu Rún suður á spítala þar sem hún var sett á gjörgæslu, enda hafði komið í ljós að hún var með blóðtappa í báðum lungum og blóðtappa í fæti sem náði í raun frá maga og niður fyrir hné. Eva Rún hefur alla tíð verið kraftmikil og kná (þó hún sé smá), lykilleikmaður í 1. deildar liði Tindastóls í körfunni, og það var eðlilega mörgum brugðið við þessi tíðindi.

„Ég mætti á æfingu á mánudeginum, 29. mars, tveimur dögum eftir ælupestina, þar sem við máttum byrja að æfa aftur, innan fjöldatakmarkana og fylgja tveggja metra reglunni,“ segir Eva og heldur áfram. „Á þeirri æfingu fékk ég mikið svimakast og náði ekki að klára æfinguna. Eftir það tók ég mér næstu daga í pásu frá æfingum og var veik heima. Þá byrjaði ég að finna fyrir verkjum neðst í hægra mjóbaki. Föstudaginn 2. apríl mætti ég loks á æfingu um hádegið og var alveg búin á því eftir hana. Seinni partinn sama dag byrjuðu verkirnir úr mjóbakinu að fara niður í mjöðmina og nárann og versnuðu með kvöldinu. Við héldum að ég væri með klemmda taug. Um nóttina gat ég varla sofið út af verkjum. Á laugardeginum voru verkirnir komnir niður í lærið og þetta versnaði og versnaði með deginum. Þann sama dag tókum við eftir því að verkjaði fóturinn var mikið dekkri en hinn og kálfinn á mér var þrútinn og stífur. Svona hélt þetta áfram, ég var rúmliggjandi að hita eða kæla fótinn, verkjuð, illa sofin og það var orðið erfitt að komast á klósettið. Svo loks á þriðjudeginum átti ég tíma hjá lækni og ég var hjá honum í svona fimm mínútur þar til hann sagði okkur að fara beint á bráðamótökuna á Akureyri og að ég væri líklegast með blóðtappa.“

Eftir eina nótt á spítala á Akureyri var Eva Rún send með sjúkraflugi suður morguninn eftir þar sem hún fór í talsvert erfiða aðgerð og var síðan á gjörgæslu í þrjá daga. Hún fékk síðan að fara heim á Krók þegar læknarnir töldu öllu óhætt. Eva Rún er fædd og uppalin á Sauðárkróki, dóttir hjónanna Þyreyjar Hlífarsdóttur, kennara í Varmahlíðarskóla, og Dags Þórs Baldvinssonar, hafnarstjóra hjá Skagafjarðarhöfnum, og er elst þriggja systkina. Hún segir ekki vitað hvað hafi valdið blóðtöppunum og mun fara í frekari rannsóknir á næstunni.

Varstu búin að finna eitthvað fyrir þessu áður eða voru engar viðvörunarbjöllur sem hringdu? „Eftir að ég greindist með blóðtappa áttaði ég mig betur á síðasta mánuði. Ég var farin að finna fyrir þrekleysi á æfingum og í seinustu leikjum. Mér fannst ég vera að missa þolið niður og ætlaði mér að fara út að hlaupa aukalega til að byggja það upp. Ég fann líka til í hægri náranum reglulega, bæði á æfingum og í daglegu lífi. Ekkert sem ég hafði miklar áhyggjur af samt. Svo fannst mér ég vera oft eitthvað slöpp og óglatt. En það hvarflaði aldrei að mér að það væri neitt alvarlegt í gangi og ég var bara á fullu að æfa.“

Hvað tekur við núna? „Núna er fyrsta skrefið að ná að labba um og koma mér úr þessum veikindum. Ég hef verið í rúminu að mestu leyti síðan ég kom heim af Landsspítalanum. En þetta kemur allt í litlum skrefum. Ég mun vera í sjúkraþjálfun næstu daga og vikur sem mun hjálpa mér mikið. Áður en við vitum af verð ég farin í langa göngutúra. En jújú, það verður alveg körfubolti næstu mánuðina en að vísu ekkert að spila neitt eða æfa með contact, sem er náttúrulega hundfúlt. En í staðinn mun ég gera einstaklings æfingar, skot, drippl, tækni og að sjálfsögðu styðja liðið mitt. Og með því ætla ég að hreyfa mig á annan hátt og vera í syrktarþjálfun. Þetta reynir mikið á þolinmæðina núna fyrst og mun allt gerast hægt. Ég þarf að vinna upp þrekið og styrkinn í rólegheitunum, innan skynsamlegra marka. En ég hef fulla trú á að það muni ganga vel og að ég geti farið að æfa, það sem ég má, af fullum krafti bráðum.“

Ítarlegra viðtal við Evu Rún verður í pappírsútgáfu Feykis í næstu viku.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir