Þingmenn brýndir í vegamálum í Hegranesi

Íbúar Hegraness í Skagafirði hafa sent þingmönnum Norðvestur kjördæmis bréf með beiðni um að þeir hlutist til um það að þegar í stað verði gengið í að útvega fjármagn til endurbóta og viðhalds á Hegranesvegi sem er malarvegur og í slæmu ástandi. Vegurinn er rúmur 20 km en nú er unnið í því að byggja upp fimm km kafla á nesinu austanverðu.
„Nauðsynlegt er að ljúka hið fyrsta uppbyggingu vegarins að austanverðu frá Ási að Félagsheimilinu þar sem sá vegarhluti er illa farinn, holóttur, grófur og efsta lagið að mestu horfið,“ segir í bréfinu.
Þar segir einnig að vegurinn vestan frá Félagsheimilinu að Hamraborg sé ónýtur eftir mikla og aukna umferð, ekki síst eftir að allri umferð var beint um hann meðan framkvæmdir stóðu yfir að austanverðu.
„Brýnt er að vegurinn verði byggður upp með burðalagi. Ofaníburð þarf strax til að hægt sé að hefla veginn. Á vegarkaflann frá Hamraborg að Sauðárkróksbraut vantar einnig ofaníburð svo hægt sé að hefla þann kafla,“ segir í bréfinu sem einnig var sent umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis.
"Má bjóða ykkur í bíltúr í Nesinu?" spyr Guðrún Lárusdóttir bóndi í Keldudal á fésbókarsíðu sinni og deilir meðfylgjandi myndbandi.
Má bjóða ykkur í bíltúr í Nesinu?
Posted by Guðrún Lárusdóttir on 26. mars 2017