Þjóðhátíðardagskrá færist inn í íþróttahúsið á Sauðárkróki
Í ljósi óhagstæðrar veðurspár fyrir morgundaginn, 17. júní hefur verið tekin sú ákvörðun að færa hátíðardagskrána sem vera átti á íþróttavellinum á Sauðárkróki inn í íþróttahúsið. Stefnt er þó á að hafa hestafjörið og þá dagskrá sem áður hefur verið auglýst við Skagfirðingabúð óbreytta en hún hefst kl. 12:30.
Klukkan 14 mun dagskráin í íþróttahúsinu byrja og þar ætlar Kvennakórinn Sóldís að syngja, fjallkonan les ljóð og hátíðarræðan verður á sínum stað. Þá ætlar Leikfélag Sauðárkróks að skemmta gestum og töframaður sýnir mögnuð töfrabrögð. Hvolpasveitin verður á sínum stað, hoppukastalar, leikir, tónlist og sykurfrauð svo eitthvað sé nefnt.
Allir hvattir til að mæta og hafa gaman saman á þjóðhátíðardaginn og ekki láta norðanrigninguna hafa áhrif á góða skapið.