Þórdísi Ingu boðið á Norðurlandamót

Ung skagfirsk hestakona, Þórdís Inga Pálsdóttir á Flugumýri, heldur í dag til Danmerkur þar sem hún mun taka þátt í Norðurlandamóti íslenska hestsins sem fram fer í Herning. Þórdís stóð sig með glæsibrag á Landsmótinu á Hellu á dögunum og fékk í framhaldinu boð um að taka þátt í NM2014.

Á föstudaginn var haldinn kynningarfundur þar sem liðsstjóri íslenska landsliðsins kynnti það lið sem tekur þátt í mótinu sem hefst í byrjun ágúst. Hesturinn sem Þórdís fær lánaðan til keppni er Meyvant frá Feti og mun hún njóta aðstoðar og leiðsagnar Skagfirðingsins Jóhanns Rúnars Skúlasonar sem búsettur er ytra.

Feykir hitti Þórdís Ingu og Önnu móður hennar stuttu áður en haldið var suður. Þórdísi bauðst þátttaka með stuttum fyrirvara en frá Íslandi verða átta keppendur í unglinga- og ungmennaflokkum. Í flestum tilfellum sækja þátttakendur um og er þá afrekslisti þeirra skoðaður og valið úr en í tilfelli Þórdísar var henni boðin þátttaka vegna góðs gengis á Landsmóti.

Þórdís heldur utan í dag og mun nota tímann fram að móti til að kynnast nýjum hesti, sem hún fær lánaðan og þjálfa sig og hestinn fyrir þátttöku í mótinu. Feykir mun fylgjast með gangi mótsins og spjallað verður við Þórdísi þegar hún kemur heim aftur að móti loknu.

Fleiri fréttir