Þórhallur Harðarson ráðinn mannauðsstjóri við HSN
Gengið hefur verið frá ráðningu Þórhalls Harðarsonar í starf mannauðsstjóra hjá Heilbrigðisstofnun Norðurlands (HSN). Þórhallur er rekstrarfræðingur að mennt og stundar framhaldsnám í stjórnun meðfram störfum.
Þórhallur starfaði hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands (HSA) frá 2005-2014. Hann var ráðinn fyrst sem rekstrarstjóri en sinnti starfi forstöðumanns fjármálasviðs frá 2009. Síðan var Þórhallur fulltrúi forstjóra um þriggja ára skeið og starfandi sem forstjóri í rúmt ár eða þar til 1. september sl. Eftir það var Þórhallur sviðsstjóri áætlana og greininga. Öll störfin hafa snert starfsmannamál með ýmsum hætti.
Þórhallur býr að 18 ára reynslu í stjórnun og rekstri fyrirtækja, þá sem efsti stjórnandi eða ofarlega í stjórnunarlagi. Hann þekkir vel til kjara- og starfsmannamála ásamt því að hafa góða reynslu í gerð samninga og rekstri fyrirtækja en Þórhallur var formaður samninganefndar HSA í samningum við stéttarfélög. Þá sá Þórhallur í fimm ár, um undirbúning funda samstarfsnefndar HSA vegna jafnlaunaátaks og þekkir vel réttindamál opinberra starfsmanna.