Þorrablót Lýtinga í beinu streymi í kvöld

„Já, við mælum með að fólk safnist saman í sinni þorra-kúlu fyrir framan skjáinn. Hafa borðhaldið klukkan 19. Opnað verður fyrir streymið klukkan 20,“ segir Evelyn Ýr Kuhne frá Lýtingsstöðum þegar Feykir spyr hvernig þorrablót Lýtinga fari fram að þessu sinni en eins og Evelyn nefnir þá verður þorrablótinu streymt í kvöld .Það er sjálfsagt óþarfi að nefna það en blótinu er að sjálfsögðu streymt vegna samkomutakmarkana tengdum Covid.

„Við höfum tekið upp alls konar skemmtiatriði innan Lýtingsstaðahrepps. Svo er hefðbundinn pistill þar sem farið verður yfir ýmislegt á síðasta ári, nefndakynning og smá söngur,“ segir Evelyn þegar hún er spurð hvað verði í boði til skemmtunar í beinu streymi.

Heldurðu að fleiri en Lýtingar hafi gaman að útsendingunni? „Við erum viss um að þetta verði skemmtilegt fyrir alla sem hafa einhver tengsl hingað í Lýtingsstaðarhreppinn og um að gera að fylgjast með. Erum við ekki öll svolítið þyrst að skemmta okkur? Reynum að gera það besta úr stöðinni. Allavega var það okkar hvati til að undirbúa stafrænt þorrablót.

Nú ert þú nú varla vön þorramat alin upp í Þýskalandi. Hlakkur þú til að komast í þorramatinn eða er eitthvað sem þú skautar framhjá? „Mér finnst margt gott í troginu. Í uppáhaldi er rúllupylsa, kótilettur, harðfiskur og sviðasulta. Ég er ekki mjög spennt fyrir súrmat, hann fer ekki nógu vel í mig, en ég læt mig hafa það að borða hákarl,“ segir Evelyn Ýr.

Áhugasamir nálgast streymið í gegnum þessa síðu: https://lydoblot.extis.one/

Það kostar ekkert að horfa en ef að fólk vill styrkja þorrablót komandi árs er hægt að leggja inn á reikning Þorrablóts Lýtinga og eru upplýsingar um það inni á síðunni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir