„Þórsarar voru ekkert að fara að leggjast niður og gefast upp," segir Helgi Freyr eftir nauman sigur Tindastóls gegn Þór Þorlákshöfn

Málin rædd á lokametrunum. Mynd: Sigurður Pálsson.
Málin rædd á lokametrunum. Mynd: Sigurður Pálsson.

„Eftir mjög erfitt tap í síðasta leik var liðið ákveðið í að koma til baka og sækja sigur í Síkinu,“ segir Helgi Freyr Margeirsson, einn þjálfara Tindastóls, eftir leik liðsins gegn Þór Þorlákshöfn í gærkvöldi. Þrátt fyrir að heimamenn hafi komið sér í ákjósanlega stöðu strax eftir fyrsta leikhluta þar sem Stólar leiddu með 30 stigum gegn 12.

Þórsarar voru ekki á því að gefast upp því annar leikhlutinn var heldur jafnari þar sem hvort lið gerði 23 stig og staðan í hálfleik 53- 35 fyrir heimamönnum. Þá var eins og stungið hefði verið á blöðru því Þórsarar höfðu betur í báðum leikhlutum sem eftir voru 19-23 og 16-28 og ekki munaði nema einu stigi þegar átta sekúndur voru eftir 87-86. Keyshawn Woods náði að auka muninn í tvö stig er hann hitti úr öðru vítaskoti sínu þegar fimm sekúndur voru eftir og Þórsarar með ágæta tilraun til að komast yfir með þriggja stiga skoti í restina. Margir voru á því að þarna hefði Tindastóll unnið sinn ljótasta sigur sem sést hefur í Síkinu um áraraðir. En sigur er sigur og það er það sem gildir í keppninni.

„Vitað var fyrir leikinn að hann yrði erfiður, enda Þórsarar engin lömb að leika sér við þó staða þeirra í deildinni sé ekki góð að þá er heljarinnar hæfileiki í liðinu og þjálfarinn reynslumikill. Leikurinn byrjaði mjög vel og spiluðum við fyrri hálfleikinn í góðum gír, hreyfðum liðið vel vörnin stóð sterk og flæðið í sókninni gott þar sem við leituðum mikið að körfunni. Í hálfleik vorum við aðeins búnir að taka átta þriggja stiga skot og nota tíu leikmenn.

Körfubolti er hins vegar leikur áhlaupa og við gerðum okkur alveg grein fyrir því að Þórsarar voru ekkert að fara að leggjast niður og gefast upp. Þórsarar koma inn í seinni hálfleikinn vitandi það að þeir þurfa að auka pressuna varnarlega og hraðann til að geta komist til baka í leiknum, við á móti, óviljandi, slökum heldur á varnarlega en hitt sem er aldrei góðs viti og á sama tíma hægist á sóknarleiknum og hraðaupphlaupum fækkar. Þetta verður því að leik í lokin sem var sterkt að klára,“ segir Helgi.

Hann er á því að það hafi verið gott að klára leikinn með sigri og hver leikur hjá liðinu sé skref í áttina að því sem það vilji gera á vormánuðum.

„Liðið er enn að vinna sig saman en framfarir leikmanna og liðs eru greinilegar. Liðið hefur fengið að finna fyrir því að missa marga lykilmenn úr æfingum í lengri tíma og það hefur áhrif. Liðið hefur sýnt á köflum hvað býr í því en það tekur tíma og vinnu að koma liðinu á þann stað að það geti sýnt stöðugleika leik eftir leik, en þangað stefnum við ótrauðir.“

Ekki mátti miklu muna að Þórsarar fengju sigurinn á silfurfati 20-0 þegar enn ein útlendingaskiptingin virtist ætla að klúðrast. Samkvæmt reglum mega einungis þrír erlendir leikmenn vera inni á vellinum samtímis í hvoru liði, hafi þeir ekki verið með fasta búsetu á Íslandi í tvö ár samfleytt. Eins og frægt er eru viðurlögin við þeim brotum 20-0 tap og 250 þúsund króna sekt eins og Tindastóll fékk að reyna í bikarkeppninni nú fyrir skemmstu eins og margoft hefur verið greint frá í fréttum. Það sem bjargaði málunum í þetta skiptið var að dómarinn hafði ekki afhent skotmanni Þórsara boltann sem var að búa sig undir að taka víti.

„Það að skiptingarnar séu ennþá vandamál er ólíðandi, hraðinn í skiptingunum er of mikill sem er óþarfi þar sem leikurinn er ekki í gangi þegar þær eiga sér stað og samskipti milli þjálfara og leikmanna ekki nógu skýr. Þetta þarf bara að laga,“ útskýrir Helgi og bætir við: „Liðið er á réttri leið, við þjálfararnir sjáum það, leikmennirnir upplifa það og trúa á uppleggið og það mun skila sér á völlinn með meiri stöðugleika þegar líður á.“

Í lokin vill Helgi minna á vefverslun körfuknattleiksdeildar Tindastóls www.tindastoll.com og dósasöfnun barna-og unglingaráðs kkd. Tindastóls nk. mánudag, 12. des. Einnig hvetur hann alla til að halda áfram að sýna liðinu stuðning: „Takk fyrir stuðninginn og hvatninguna hún skiptir máli! 1, 2, 3, Áfram Tindastóll!“

Tölfræði leiksins má nálgast HÉR

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir