Þriðji sigurinn í röð.
Hamar kíkti í Síkið ígærkvöld og mætti liði Tindastóls. Hjá heimamönnum voru tveir erlendir leikmenn að spila sinn fyrsta heimaleik, þeir Sean Cunningham og Hayward Fain. Tindastóll fékk sín fyrstu stig á föstudaginn með sigri gegn Stjörnunni, en Hamar hafði ekki spilað deildarleik síðan 28. október þar sem leik þeirra gegn KFÍ var frestað í síðustu umferð.
Það virtist sem síðasti leikur sæti aðeins í heimamönnum því Hamar byrjaði töluvert betur í leiknum. Darri Hilmarsson skoraði 8 fyrstu stig Hamars og eftir fimm mínútur var staðan 3 – 11 og leist Borce Tindastólsþjálfara ekkert á blikuna og tók leikhlé. Hann henti síðan nýja manninum Hayward Fain inná og þá fóru Stólarnir í gang. Munurinn minnkaði jafnt og þétt og munaði aðeins einu stigi þegar fyrsta leikhluta lauk. Staðan 20 – 21.
Fyrstu mínútur annars fjórðungs var jafnræði með liðunum, en um hann miðjan slitu Stólarnir sig frá gestunum og náðu mest 11 stiga forskoti. Hayward kom sterkur inn á þessum kafla ásamt Sean. Hamar náði að klóra í bakkann fyrir hálfleik og leiddi Tindastóll með 8 stigum í hálfleik, 50 – 42. Hayward var kominn með 15 stig í hálfleik og eina svakalega troðslu, en Kitanonvic og Sean 11 stig hvor. Hjá Hamri var Darri með 16 stig og Andre með 7.
Hamar mætti með öfluga svæðisvörn í síðari hálfleik sem heimamenn lentu í vandræðum með. Lítið gekk í sókninni hjá Stólunum meðan Hamar minnkaði muninn jafnt og þétt. Var þar aðallega öflugur sóknarleikur frá Andre á ferðinni. Í stöðunni 59 – 57 náðu heimamenn að finna svar við vörn Hamars og þristarnir fóru að detta. Að loknum þremur leikhlutum var staðan 69 – 62.
Tindastóll var ekkert á því að gera leikinn spennandi fyrir áhorfendur. Þeir juku muninn með hverri mínútunni og þegar fjórði leikhluti var hálfnaður var staðan 81 – 66. Þeir náðu síðan mest 19 stig forskoti, 87 – 68, en þá skipti Borce yngri drengjunum inná sem kláruðu leikinn. Hamar saxaði aðeins á forskotið síðustu mínúturnar, en öruggur sigur Tindastóls var í höfn og lokatölur 92 – 78. Kitanovic og Hayward voru öflugir á lokakaflanum fyrir Tindastól og skópu þennan örugga sigur. Hamarsmenn gáfust hinsvegar aldrei upp, en mættu ofjörlum sínum að þessu sinni.
Hayward var bestur Tindastólsmanna að þessu sinni með 23 stig og 9 stoðsendingar. Næstir voru Kitanovic með 22 stig og 12 fráköst og Sean með 17 stig. Þá var Helgi Rafn öflugur og aðrir skiluðu sínu. Hjá Hamri var Andrey stigahæstur með 23 stig, en næstur kom Darri með 19 stig en hann náði sér ekki á strik í síðari hálfleik. Þá var Ragnar með 7 fráköst og reyndist heimamönnum erfiður í teignum.
Stigaskor Tindastóls: Hayward 23, Kitanovic 22, Sean 17, Friðrik 9, Helgi Rafn 8, Halldór og Hreinn 5 hvor og Helgi Freyr 3.
Hamar: Andre 23, Darri 19, Snorri 9, Hilmar, Ragnar og Bjarni 6 hver, Ellert 5, Kári 3 og Svavar 1.
Dómarar leiksins: Einar Þór Skarphéðinsson og Jón Þór Eyþórsson.
Þetta hafði Borce Ilievski þjálfari Tindastóls að segja eftir leikinn:
“Eftir sigurinn á Stjörnunni, jókst sjálfstraustið mjög mikið og með nýju leikmönnunum erum við komnir með nýtt lið. Svo höfum við fengið gott framlag frá reyndari leikmönnunum eins og Rikka, Helga Frey og Helga Rafni. Ég er ánægður með liðið í dag. Það má segja að það sé endurfætt. Með þessu liði getum við farið og keppt við hvaða lið sem er, en við þurfum samt að bæta okkur með hverjum leik. Við vorum óheppnir í upphafi móts, undirbúningur hófst seint, en þetta er nú að baki. Liðið er farið að leika eftir minni hugmyndafræði, spilum góða vörn og ég á von á spennandi næstu leikjum og til loka tímabilsins.”
Ánægður með nýju leikmennina?
“Já, ég er ánægður með þá. Sean er kominn inn í leikkerfin, en Hayward er bara nýkominn og við höfum þurft að leika meira af fingrum fram þegar hann er inná. Með tímanum munu þeir verða betri og ég á von á að yngri leikmennirnir muni líka bæta sig eftir að hafa fengið mínútur í fyrstu leikjunum og að þeir muni bara verða betri.”
Gefa þessir þrír sigurleikir liðinu ekki auka kraft?
“Jú, eins og ég sagði þá er liðið orðið samkeppnishæft og ég á von á góðum úrslitum í framtíðinni.”
Texti: Jóhann S.