Þrír leikir við Njarðvíkinga í dag

Körfuknattleiksdeild Tindastóls leikur þrjá leiki við Njarðvíkinga í dag, þ.e. meistaraflokkur í Dominos deildinni, 11. flokkur drengja undanúrslitaleik í Bikarkeppni KKÍ og unglingaflokkur tekst á við Njarðvík í Íslandsmóti unglingaflokks karla.

Meistaraflokkurinn tekur á móti liði Njarðvíkur í Síkinu kl. 19:15 en samkvæmt heimasíðu Tindastóls er um mjög mikilvægan leik að ræða. Yfir stendur hatrömm barátta um síðasta lausa sætið í úrslitakeppninni og til að halda þeirri baráttu lifandi, verða strákarnir að leggja Njarðvíkinga að velli í kvöld.

„Njarðvíkingar eru heitasta liðið í deildinni í dag, hafa unnið fjóra leiki í röð, þar af Stjörnuna á útivelli og KR-inga heima. Þeir hafa komið sér vel fyrir í 7. sætinu og eygja jafnvel möguleika á sæti ofar fyrir úrslitakeppni. Tindastólsmenn voru nánast klaufar að klára ekki leikinn gegn Þór á föstudaginn og hafa sýnt mikla baráttu í undanförnum leikjum. Þessi leikur er afar mikilvægur og engin ástæða til annars en að hvetja fólk til að koma í Síkið og hvetja strákana áfram,“ segir á heimasíðunni.

11. flokkur drengja spilar við Njarðvíkinga í undanúrslitaleik í Bikarkeppni KKÍ kl. 16 en samkvæmt heimasíðu Tindastóls lögðu strákarnir Fjölni á dögunum í 8-liða úrslitum í mjög góðum leik og eru til alls líklegir gegn sterku liði Njarðvíkinga. Bikarúrslitin fara fram um næstu helgi og því hver að verða síðastur að spila undanúrslitaleiki.

Á eftir meistaraflokksleiknum, eða um kl. 21:15, tekur Tindastóll á móti Njarðvík í Íslandsmóti unglingaflokks karla. Njarðvíkingar eru ósigraðir í A-riðli, hafa unnið alla 8 leiki sína. Tindastóll er í 2. sæti í riðlinum.

Dagskráin dagsins verður því svona:

  • Kl. 16:00 Tindastóll - Njarðvík, undanúrslit í bikar.
  • Kl. 19:15 Tindastóll - Njarðvík í Domino's deildinni
  • Kl. 21:15 Tindastóll - Njarðvík í Íslandsmóti unglingaflokks karla

 

Fleiri fréttir