Þröstur Kárason á leið í EuroSkills Budapest 2018

Í keppninni þurfa smíðakeppendur að útbúa glugga sem krefst mikillar færni smiðsins. Mynd: Atli Már
Í keppninni þurfa smíðakeppendur að útbúa glugga sem krefst mikillar færni smiðsins. Mynd: Atli Már

Dagana 26. til 28. september nk. mætast í Búdapest, höfuðborg Ungverjalands, hæfileikaríkustu ungmenni Evrópu sem unnið hafa þátttökurétt í sínum heimalöndum á sviði iðngreina og reyna með sér í EuroSkills Budapest 2018. Íslensku þátttakendurnir eru átta talsins og eiga það sameiginlegt að hafa staðið uppi sem sigurvegarar á Íslandsmóti iðngreina sem fram fór í mars 2017. Tveir Skagfirðingar eru á meðal þátttakenda, Kristinn Gísli Jónsson matreiðslunemi og Þröstur Kárason, nýútskrifaður smiður.

Feykir hitti Þröst á dögunum, ásamt Atla Má Óskarsson, tréiðnakennara og þjálfara Þrastar, og Indriða Ragnar Grétarsson, trésmið og sölumann hjá Versluninni Eyri sem sá um að útvega verkfæri fyrir verkefnið, og forvitnaðist um þetta ævintýri.

Í framhaldi af Íslandsmóti iðngreina árið 2017 ákvað Iðnmennt, sem er félag iðnmenntaskóla á Íslandi, að senda keppendur á Evrópumót iðnnema í Búdapest og verður Þröstur þar á meðal 600 annarra keppenda.

Atli Már, Þröstur og Indriði við smíðastykki sem Þröstur hefur verið að æfa sig á. Mynd: PF

 Atli Már, Þröstur og Indriði við smíðastykki sem Þröstur hefur verið að æfa sig á. Mynd: PF

Atli Már Óskarsson, deildarstjóri tréiðna hjá FNV, segir að skólinn og starfsmenn hans hafi ákveðið að aðstoða Þröst en það sé Iðan fræðasetur sem heldur utan um smíðahlutann. „Þar sem við erum meðlimir þar var ákveðið að ég færi sem þjálfari og dómari í keppninni þannig að  okkur var gefin kostur á að þjálfa Þröst hérna. Iðnmennt og Iðan töluðu við heimamenn um styrki til að gera okkur kleift að gera þetta og það varð úr að Kaupfélag Skagfirðinga styrkir verkefnið veglega í verkfærum og öðru líkt og fyrirtækið Ísól sem skaffar einnig verkfæri sem Iða kemur til með að eiga áfram upp á fleiri keppnir,“ segir Atli.

„Mér líst bara þokkalega á þetta. Þetta er mjög mikill heiður fyrir mig og skemmtilegt að fara í svo stóran viðburð erlendis,“ segir Þröstur.

Í Feyki sem kom út í gær er viðtal við þá Þröst og Atla Má sem segja frá keppninni og undirbúningnum auk þess sem Indriði Ragnar Grétarsson segir frá aðkomu Verslunarinnar Eyri með aðstoð og styrki.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir