Þuríður Harpa í Dehí - Hamagangur á Hóli

 Laugardaginn tókum við snemma, þ.e. eftir æfingar sem gengu prýðilega áttum við pantaðan leigubíl kl. hálfeitt, við ætluðum í The national gallery of mordern art hér í Delhí að klára að skoða sýninguna hans Anish Kapur, síðan ætluðum við í annað gallerý sem er í einkaeigu og staðsett í molli sem ekki er búið að taka í notkun. Leigubílstjórinn fékk leiðbeiningar á hindi frá Jody og síðan lögðum við í hann. Eftir að hafa ekið langa stund vorum við nokk vissar um að leiðin var röng. Við reyndum að segja honum að þetta væri nálægt India Gate en hann spurði þá hvað það væri. Okkur var svarafátt, hverslags ráðdeild var þetta hjá Jody að senda okkur af stað með mállausan mann sem ekki las ensku og vissi ekkert hvar þetta þjóðþekkta tákn var. Við þvældumst um og öðru hvoru stoppaði gaurinn og spurði næsta íssala til vegar. Ekki fannst okkur tíma okkar vel varið en að lokum hafðist þetta. Við kláruðum Anish og straujuðum í gegnum eina hæðina sem innihélt mest gömul verk eftir farandmálara sem máluðu fyrir Austur Indíafélagið eða semsagt bretana.

Við vorum aftur á faraldsfæti og nú virtist leigubílstjórinn vita hvert hann var að fara. Sýningin í einkagalleríinu stóð undir væntingum og vel mettar af menningu þrömmuðum við af stað í næsta moll;O). Leigubílstjórann höfðum við sent heim. Við römbuðum inn í moll á mörgum hæðum, langmest voru þetta verslanir með skartgripi. Sem sagt fullt af verslunum og afgreiðslufólki en nánast engir kúnnar, við Auður vorum fljótar út og kláruðum daginn á vel þekktum slóðum. Við vorum drúgt góðar með okkur að panta sjálfar leigubíl heim og semja um verð en við þurftum aðeins að borga 250 rúbíur fyrir skutlið. Við bröltum hlaðnar pinklum upp á herbergið. Ég dreif mig inn á bað til að þvo mér á meðan Auður fór að koma dótinu fyrir. Fyrir utan baðhurðina heyrði ég skark og háreysti, Auði var greinilega mikið niðrifyrir við að tala við mannin sem kom með matarbakkana hugsaði ég. Skarkið og hávaðinn hélt áfram ég ákvað að blanda mér í málin og svipti upp hurðinni orðin frekar forvitin að vita hvað gengi á. Hvað er í gangi spurði ég þar sem ég sá Auði útundan mér, standa með rúmdýnuna sér varnar, einn aðstoðarmaðurinn stóð hálfboginn á miðju gólfi með handkúst. Auður hrópaði – það er mús hér inni. Þetta var nóg fyrir mig ég spólaði til baka inn á baði á hjólastólnum og reyndi að rykkja hurðinni á eftir mér, lokaðu argaði ég og Auður henti sér á hurðina. Fyrir innan dyrnar sat ég, ekki alveg örugg, músin gæti komist undir hurðina, ég þreif skúringagræjuna, tékkaði á að fæturnir væru örugglega uppi á stólnum og sat svo yfirspennt við hurðina og fylgdist með því hvort músin kæmi inn til mín. Frammi heyrði ég Auði hrópa á aðstoðarmanninn að hætta að glápa á sig, stop lúkking at mí, æ am not the más, heyrði ég hana góla. Þuríður þetta helv. greni ekki einu sinni múshelt og skarkið hélt áfram lengi, lengi. Allt í einu datt logn á, er búið að ná músinni kallaði ég tilbúin með skúringakústinn. Já svaraði Auður, ég opnaði fram, öllu óhætt spurði ég? Held það sagði Auður tætt, Þuríður ég get ekki sofið hér á gólfinu núna. Bara ekki séns. Við ákváðum að reyna að freista þess að fá rúm fyrir hana. Eftir samníngaumleitanir við Jody og húsvörðinn, fékk Auður að sofa í næsta herbergi uppi í rúmi, á morgun skildi teypað með límbandi fyrir allar rifur inn í herbergið. Við stöllur sváfum í sitthvoru herberginu. Í morgun drukku tvær vansvefta konur saman morgunkaffið. Alveg ótrúlegt að fá mús inn á þriðju hæð og já okkur þótti þetta verulega óþægileg upplifun. Við ákváðum því að gleyma okkur í dag, gleyma músaganginum og fara í flottasta mollið í bænum, en þar átti Auður eftir að koma. Þetta er náttúrlega þar sem tvö moll eru saman annað fyrir milljarðamæringana og hitt fyrir millistéttina. Það er bara þannig að það er rosa gott að komast í hreint og fínt umhverfi þar sem maður er nokk viss um að maturinn sem maður fær, er í lagi. Við erum komnar aftur heim á herbergi eftir strembinn dag í mollinu, búnar að leggja af velli enn eina verslunarferðina og Auður búin að líma fyrir allar glufur, lemja undir skápinn, draga fram alla hluti og skúra. Við reiknum með að sofa nokk rólegar í nótt, þó vissulega eigi ég betra með að sofa hér uppi í rúmi heldur en Auður sem þarf að sofa á gólfinu. Við erum samt sem áður, enn og aftur alsælar eftir ágætan dag í mollinu;O)

Fleiri fréttir