Þuríður Harpa í Delhí -Fyrsta sprautan að baki og jarðskjálfti líka
Við vonum allavega að við upplifum ekki meiri jarðskjálfta. Klukkan að verða tvö í nótt vöknuðum við Auður við það að rúmin okkar gengu til og frá í mjúkum bylgjum. Ég reyndar hélt í fyrstu að þetta væri ókennilegur spasmi í fótunum á mér ég þreifaði á vegginn og fannst hann þá ganga til undir lófanum á mér, í svefnrofanum var ég samt hreint ekki viss var ég með svona asnalegan spasma eða var þetta eitthvað annað. Allt í einu varð allt stillt ég lá róleg og var að spá í þetta þegar Auður segir, fannstu jarðskjálftann, já, svaraði ég, var þetta ekki jarðskjálfti. Ótrúlega skrýtin upplifun sagði hún, hef aldrei fundið jarðskjálfta áður. Ég mundi þá að ég hafði upplifað eitthvað svipað fyrir um ári síðan en þá svaf herbergisfélaginn þannig að ég hélt þetta hefði verið spasmi. Við skulum bara vera rólegar, sagði ég, já, förum bara að sofa aftur, sagði Auður. Hvor um sig áttum við samt svoldið erfitt með að festa svefn, veltum því fyrir okkur hvar best væri að vera í herberginu ef fleiri skjálftar kæmu í kjölfarið. Ég var eiginlega komin á þá skoðun að líklega væri best að reyna að komast niður í kjallara, eða liggja undir rúmi, sama hugsaði herbergisfélaginn, hún ætlaði reyndar að troða mér undir rúm en setja gólfdýnuna yfir sig. Hmmmm veit nú ekki hvort öryggið hefði verið nokkurt með dýnu ofan á sér og svo heilt hús þar ofan á, en hvað veit maður. Við vitum þó eitt að byggingarnar hér eru ekki með neinni járnabyggingu í veggjum, þær eru ekkert sérlega traustar yfirhöfuðu. Við lágum í fastasvefni til níu en þá var vekjarinn farinn að pípa, guðslifandifegnar að vera á lífi og ekki klemdar undir rúmi eftir jarðskjálfta, tuskuðumst við á lappirnar, ef svo má að orði komast. Við komumst svo að því að jarðskjálfti upp á 7,4 á Ricter átti upptök sín í Pakistan, við fengum einhverjar eftirhreitur sem ekki gerðu neinn usla, gott að við erum ekki í Pakistan. Auður hellti upp á gott, sterkt kaffi og með því bar hún fram ristað brauð með íslenskri bláberjasultu úr handtíndum berjum frá Ritu, bara dásamlegt. Hjúkkugengið kom og mældi blóðþrýsting og súrefnismettun, og já, sprautuna átti ég að fá í hádeginu eða kannski kl. hálfellefu. Ég bent á að ég væri að fara í æfingar þá, já, sprautan verður eftir þann tíma var svarið. Niðri fór ég í gegnum hefðbundið prógramm, á að hreyfa tær og ökkla, sem reyndar gerist ekki en ég reyni. Á að færa til fótinn þegar ég ligg á hliðinni annarsvegar að toga hæl að rassi eða ýta fætinum niður, síðast gekk þessi æfing orðið nokk vel og sjáanlegt þá að mér tókst að hreyfa fæturna lengra en áður. Reyndar tókst mér ekki að færa þær neitt til í fyrstu. Nú hinsvegar finnst mér að ég geti ekki fært eins langt en ég hef líka ekki æft þetta neitt síðan síðast og vona því að þessi færni komi inn af meiri krafti. Ég fór á spelkurnar, svo á göngubrautina þar sem vinstri hnéspelkan var tekin. Mér gekk betur að stíga í hægri fótinn núna og þetta varð því ekki jafn erfitt fyrir axlir og handleggi og í gær. Ég hinsvegar nota mjaðmirnar of mikið til að reyna að hnikkja hnénu aftur og stífa það þar. Hef ekki enn neina tilfinningu fyrir því hvernig ég á að ná sambandi við hnésvæðið og láta það hlýða. Ég held samt að eftir því sem ég geri þetta oftar þá gerist eitthvað sem veldur því að örlítið samband kemst á og það nægir mér til að byrja með. Ég fór á boltann og tók þessar venjulegu æfingar að vísu lætur Shivanni mig taka nú lengri tíma í að halda báðum höndum á lofti og halda jafnvægi á boltanum, hún lætur mig líka slá með hægri hendinni á vinstri hendina hennar, semsagt skáhreyfingu, og svo öfugt, þetta er ný æfing á boltanum og er mjög krefjandi fyrir jafnvægi. Eftir æfingar var ekkert verið að gefa manni neinn tíma heldur var ég drifin upp. Við Auður skruppum samt aðeins út í dyr bara svo ég gæti séð dagsljósið áður en rúmlegan hæfist. Ég fór í köflótta serkinn og var svo keyrt inn á skurðstofuna. Þar var dr. Ashis mættur, hann sagðist myndi gefa mér sprautu núna sem ætti að virka á blöðru og iðrarsvæðið sem og mjaðmasvæðið. Hann vill endilega að ég fá einhverja tilfinningu í blöðru og auðvitað langar mig það líka. Hann talaði um að þessi sprauta færi inn á Coral epidural svæðið – ég veit ekkert hvort ég skrifa þetta rétt, en ég komst að því svo þegar mér var skutlað upp í rúmið á herbergi 305 að ég hafði fengið sprautu neðst í rófubeinið, mátti bara þakka fyrir að þeir stungu ekki neðar. Það er akkúratt í þessum spraututilfellum sem ég þakka fyrir það að hafa ekkert skyn. Að vísu fékk ég hevý gæsahúð alveg upp að öxlum og fann svo fyrir þyngslatilfinningu sem breyddist frá mjöðmum og niður eftir lærum. Dr. Ashish er alltaf glaður ef ég finn svoleiðis tilfinningu. Inná herbergi 305 var rúmið hækkað þannig að höfuðið vísaði niður, stofnfrumuvökvanum var ætlað að renna frá rófubeinsstað og að skaðaða svæðinu í brjóstbakinu. Ég lá þarna í 4,5 tíma og dormaði mest allann tímann. Sjúkraþjálfu sendi ég út á galeiðuna, gat ekki séð að hún þyrfti að hanga yfir mér allan tímann. Enda bara gott að fá frið til að sofa;O) og hún hafði bara gott af að losna aðeins frá mér. Þrem tímum seinna kom hún inn, hún hafði fengið leiðsögn Jeffs um svæðið hérna í kring þau þreyttu kraftgöngu um göturnar og enduðu svo á Green Park í sælgætisbúðinni Evergreen, þar inni gátu þau valið úr ótrúlegu úrvali af indversku handgerðu sælgæti og tertum. Auður kom út með 6 mola sem henni fannst að myndu smakkast vel sem og þeir svo gerðu, sælgætið rann lúflega niður með swissmokka kaffinu hennar Auðar, við vonum auðvitað að indverskt sælgætishandverksfólk hafi verði með hanska við tilbúininginn annars gætum við átt á hættu að sælgætið góða rynni af jafnvel meiri hraða út aftur. Við sjúkraþjálfa ákváðum að viðra mig aðeins eftir rúmleguna, stefnan var tekin upp á Green Park Markaðinn svosem ekki til að gera neitt annað en skoða efni. Auður er öll að eflast í umferðinni hérna, frekjulegu flautinu mætir hún á kjarnyrtu ilhýru móðurmáli, engar enskuslettur þar, og ákveðin brunar hún mér orðið í veg fyrir hvaða bíl sem er, ég nöldra náttúrlega yfir þessu og bendi henni á að auðvitað tækju bílarnir mig úr höndunum á henni ef þeir næðu ekki að stoppa, hún lætur nöldrið sem vind um eyru þjóta brosir bara að þessu. Akkúratt í nöldursenu varð ég næstum fyrir afar óskemmtilegri lífsreynslu. Hún keyrði mig aftanundir bíl og tók sveigir svo fimlega meðfram honum, ég sé í hendingskasti hvar afturrúða bílsins er skrúfuð niður og gamall, skeggjaður maður með gráan túrban lætur rauðleita, feita, tóbaksslummu vaða út um gluggann. Slumman stóra, flýgur rétt fram hjá nefinu á mér, kallinn hrökklast til baka í bílnum og Auður hægir á, lenti þetta nokkuð á þér, spyr hún. Nee neih ég held ekki segi ég og skoða skóna mína. Þarna munaði litlu, ef Auður hefði ekki dregið úr ferðinni þegar hún keyrði aftur undir bílinn þá hefði ég verið akkúratt með vangann í beinni línu við gluggann þegar kallinn sleppti slummunni. Hún hefði lent á mér, líklega á nefið á mér og rauð, þykk, slímug slepjan runnið niður af nefinu á mér og niður sitthvora kinnina, ohhhöö, algjörlega ógeðsleg. Sjúkraþjálfu var skemmt, hún skellihló, en bara afþví að þetta fór vel, held ég ;O). Upp á herbergi fengum við þennan dýrindis kvöldmat, vorum þó búnar að búa okkur undir að þurfa að hringja á neyðarfæði -sem er pizza-, við höfðum pantað fisk og viti menn það var smá fiskbragð af fiskinum og hann var frekar mjúkur undir tönn enn ekki seigur. Með þessu fylgdi pasta í venjulegri tómatsósu og brokkolíbitar í grárri slímslepju ofurkryddað með Chilli. Þetta var bara ágætt og við gátum vel borðað þetta, á eftir var indverska namminu með nokkrum bitum af íslensku suðusúkkulaði gert skil. Ég gleymdi alveg að segja frá því að skúringamönnunum hér hefur bæst liðsafli. Auður gat bara ekki á sér setið lengur, varð bara að skúra gólfið í herberginu almennilega, eftir að hafa sópað saman mesta rykið lagðist hún á fjórar fætur og djöflaðist á gólfinu með tuskunni. Eftir á var hún alsæl, herbergið ilmaði af hreingerningalegi og henni fannst hún sjá gólfið algjörlega í nýju ljósi, ég held það hafi bara verið rétt, það hefur sjaldan verið bjartara, gólfið. Ég velti því fyrir mér hvort það gætu ekki orðið ábatasöm viðskipti hjá okkur stöllum að gera Auði út í skúringar og stórþvotta, hún er ansi góða að þvo í höndunum og gerir það nánast daglega, ég reyni að buslast eitthvað í þessu líka, svona til að sýna lit. Ég gæti alveg tekið niður pantanir og séð um að selja hana út í djobbið. Er alveg handviss um að margir vistmenn hér myndu taka þessu fegins hendi, þarf að ræða þetta við hana af alvöru:O). Annars var ég vitni að því í gær þegar Jeff lét skúringamennina skúra upp úr hreinu vatni hjá sér, hann heimtaði að fá að sjá vatnið sem þeir ætluðu að skúra uppúr, það var kolsvart og tuskan dökkgrár ræfill. Hann heimtaði hreint vatn, maðurinn kom með fötuna til að leyfa honum að sjá, tuskan var ofan í og vatnið grænt, Jeff skipaði manninum að fara inn í herbergi þeirra feðga og láta renna hreint vatn í fötuna, svo vildi hann aðra tusku og vatnið ætti að vera það hreint að hann gæti drukkið það. Maðurinn kom með aðra fötu og hreint vatn, Jeff blessaði yfir þetta og spurði svo um hreina tusku, hún er ekki til, var svarið. Hann varð að gera sér það að góðu. Kannski við þyrftum að vera harðari á hvernig við viljum að hlutirnir séu gerðir, skúringamennirnir móðgast allavega ekki og eru allir að vilja gerðir að framfylgja óskunum …að lokum.
Á morgun er venjulegur dagur, við munum samt finna okkur eitthvað nýtt að skoða, og þó ég hafi séð þetta allt hér áður þá finnst mér svoldið gaman að kynna sjúkraþjálfu fyrir þessu umhverfi hér sem er svo ótrúlega ólíkt því sem hún á að þekkja heima.