Þuríður í Delhí - Þreytulegar á föstudegi

Við erum hálftuskulegar, stöllur, þar sem við sitjum hér upp í rúmi og hámum í okkur popp. Mér er hrollkalt eftir daginn, líklega erum við báðar þreyttar eftir vikuna, í sjónvarpinu er Ghost Rider sem við horfum á með öðru auganu. Dr. Geeta tilkynnti mér í dag að á mánudaginn fari ég á hitt sjúkrahúsið í þriggjadaga sprautu, sem þýðir að ég kem til baka á miðvikudegi. Við ætlum því að nota tækifærið um helgina og fara bæði í moll og á listasafn, semsagt nóg að gera. Æfingar gengu betur í dag en í gær – er ekki jafn jafnvægislaus og miklu betri á boltanum. Eins finnst mér að hnéæfingin gangi örlítið betur, finnst ég ná einhverri tengingu þó svo að mjaðmahnykkurinn sé enn ofnotaður. Þetta er allt í rétta átt. Fékk hrúgu af vítamínum skömmtuð í dag af hjúkkunum að beiðni dr. Geetu, líklega hefur eitthvað sést á blóðprufu að mig vantaði svoleiðis og ég er alltaf hlaðin upp af þeim hér ef þurfa þykir. Á reyndar að borða 6 litlar kexkökur á dag sem eru fullar af Bvítamíni, svipaðar obblátum að stærð. Ótrúlega ógislega vont kex. Hugsa að ég reyni að koma mér hjá því að borða það. Eftir æfingar í dag fórum við sjúkraþjálfa á Dilli Hat markaðinn, sem ég hef náttúrlega komið á nokkrum sinnum áður, enda þekkja þeir mig sumir sölumennirnir og eru alveg hissa á að sé komin eina ferðina enn frá Íslandi, tveir tvítugir sölumenn höfðu sérstakan áhuga á því að vita hvernig ég hefði lamast og hvort ég gæti eitthvað gert. Þeim fannst mjög merkilegt að ég byggi ekki inni hjá foreldrum mínum, sögðust sjálfir vera frá Kasmírhéraðinu og þeir myndu báðir búa hjá foreldrum sínum það sem eftir væri, þannig væri bara venjan þar. Þeir vorkenndu mér óskaplega og sögðust myndu biðja fyrir mér oft á dag, þá eru þeir orðnir nokkrir sölumennirnir á Dilli Hat sem studna þá iðju, ótrúlega vinalegir sölumenn. Það var nóg að skoða enda er allt önnur vara þarna núna og sjúkraþjálfa naut þess að skoða öll silkiefnin og kamírsilkiblöndurnar, andvarpaði svo, eiginlega viss um að hún hefði ekki tíma til að vinna úr efnunum ef hún keypti þau. En það var gott að koma við þau, og gaman að skoða perlufestarnar. Á morgun þarf ég að gefa bæði blóðprufu og þvagprufu og á því von á innrás hjúkkanna um níu leitið og svo æfingar kl. 10.

Annars hef ég verið frekar stíf í lærum bakhluta og mjöðmum í dag, með stöðugan sviðabruna, held þetta séu afleiðingar af rófubeinssprautunni, það verður gaman að sjá hver breytingin verður. Það sem kemur mér alltaf jafn mikið á óvart er hvað ég er í raun fljót að venjast við ákv. æfingar, einhvernveginn virðast sá hluti sem stefnt er að að æfa, fara að virka rétt en samt af svo litlum mætti. Svoldið skrítið, ég man t.d. þegar ég horfði á strákana skríða á fjórum fótum á dýnunni. Þá taldi ég að ef ég einhverntíman næði svona langt að þá myndi ég vera nær alheilbrigð. Batinn og getan sem koma hafa samt þá annmarka að tilfinningin er langt frá því að vera lík því sem hún var og virknin sem kemur er svo örlítil, en samt næg til að ég verði vör við hana. Þetta tekur náttúrlega alltof langan tíma, mér finnst ég oft ekki hafa tíma til að bíða eftir þessu, og vildi óska að á morgun vaknaði ég bara og gæti sippað mér fram úr og í fötin – hversu stórkostlegt og brjálæðislegt væri það? Góðir hlutir gerast hægt og í mínu tilfelli ofurhægt – sem er svo sannarlega betra en ekkert enda veit ég í alvöru ekki hvar ég væri stödd ef ég hefði ekki drifið mig af stað í þetta ótrúlega ferðalag að freista þess að fá einhverja færni til baka. Ég er alltaf að verða vissari og vissari í minni sök um að það þarf að gera endurbætur á endurhæfingaferli mænuskaðaðra, það bara verður að gera það þó við séum sem betur fer ekki mörg þá hljótum við að eiga rétt á því að lífsgæði okkar séu eins góð og mögulega er hægt að gera þau, nóg er nú samt baslið við að vera í þessu ástandi, bæði líkamlegta og sálarlega. Að þessu sögðu bíð ég góða nótt og vona að morgundagurinn verði okkur öllum góður.

Fleiri fréttir