Til þingmanna Norðvesturkjördæmis.
Starfsfólk Heilbrigðisstofnuninni Sauðárkróki mótmælir óskiljanlegri aðför heilbrigðisyfirvalda að heilbrigðisþjónustunni í héraðinu. Á undanförnum árum og áratugum hefur þróunin verið sú að sérhæfing innan heilbrigðiskerfisins hefur aukist og starfsemi færst yfir á hátæknisjúkrahúsin á Akureyri og Reykjavík. Sérhæfð starfsemi sem fór fram í heimahéraði hefur verið skorin niður og samfara þessu hefur minna fé verið veitt til starfseminnar á hinum minni sjúkrastofnunum á landsbyggðinni sem okkar stofnun, Heilbrigðisstofnunin Sauðárkróki, telst til.
Þeirri starfsemi sem enn fer fram hér erum við hins vegar vel í stakk búin til að sinna og það er óumdeilt að það er mun hagkvæmara að hún fari fram í heimahéraði en á hátæknisjúkrahúsunum þar sem kostnaður við hvert sjúkrarúm er margfalt meiri. Hér eru hjúkrunardeildir reknar samhliða lítilli sjúkradeild á hagkvæman hátt þar sem starfskraftar eru samnýttir á vöktum, stoðdeildir (rannsókn, röntgen og endurhæfing) eru samnýttar af sjúkradeild, hjúkrunardeildum og heilsugæslu. Vel búnar skurðstofur eru fyrir hendi á stofnuninni en skurðstofustarfsemi hefur lagst af að mestu og hafa skurðstofuvaktir verið lagðar niður fyrir löngu. Einstaka einfaldar aðgerðir eru þó enn gerðar hér af skurðlæknum sem koma að og þá aðstoðar starfsfólk af sjúkradeildinni með til þess bæra menntun og reynslu. Þó að þessi starfsemi legðist alveg af hefði það lítinn sem engan sparnað í för með sér.
Á undanförnum árum hefur sérfræðiþjónusta verið veitt á stofnuninni aðallega af læknum frá Sjúkrahúsinu á Akureyri, þar sem sérfræðingar í hinum ýmsu greinum hafa verið með móttöku og sú þjónusta verið sniðin eftir þörfum íbúa hér og gert þeim kleift að sækja þjónustu á heimaslóðum sem þeir ella þyrftu að ferðast langar leiðir til að fá. Sjúkradeildin sinnir nú aðallega lyflækningum og endurhæfingu, þá erum við t.d. að tala um eldra fólk sem veikist og þarf að leggjast inn til að komast yfir tímabundin bráð veikindi eða eru að bíða eftir hjúkrunarplássi, krabbameinssjúklinga með sjúkdóm á lokastigi sem þurfa á líknandi meðferð að halda og sjúklinga sem þurfa að liggja inni eftir aðgerðir til endurhæfingar áður en það er fært um að útskrifast heim. Við blasir, ef stjórnvöld sjá ekki að sér, að þessir sjúklingar þurfi með ómældum kostnaði og fyrirhöfn aðstandenda að leggjast inn á sjúkrahús á Akureyri eða Reykjavík sem hafa nóg með að sinna því sem þau gera í dag.
Vandamál landsbyggðarinnar hefur verið að erfitt er að manna stöður í heilbrigðiskerfinu til að halda uppi lágmarks þjónustu. Við hér í Skagafirði höfum verið lánsöm að geta haldið góðri mönnun með hæfu starfsfólki. Hér hefur starfsfólk verið samheldið og góður andi ríkt innan stofnunarinnar og hún verið margverðlaunuð fyrir góðan árangur í rekstri. Því er sú ákvörðun að skerða framlög til stofnunarinnar um þriðjung óskiljanleg og er beinlínis verið að fremja skemmdarverk á þeirri góðu og þörfu starfsemi sem hefur verið byggð upp og okkur tekist að halda hér í héraðinu.
Heilbrigðisstofnunin Sauðárkróki tók á sig meiri niðurskurð árið 2010 heldur en aðrar stofnanir þurftu að gera. Þetta leiddi af sér fækkun starfsfólks og eins og staðan er í dag er mönnun á legudeildum í algjöru lágmarki og væri undir öryggismörkum ef lengra yrði gengið. Þau skilaboð sem við fengum eftir hinn mikla niðurskurð á síðustu fjárlögum var að okkur myndi verða hlíft í ár. Annað hefur nú komið á daginn og þykir okkur þessi vinnubrögð vera vægast sagt forkastanleg og handahófskennd. Ekkert samráð hefur verið haft við heimamenn sem ráðamenn hafa talað um að verði að gera þegar um svona stóra og afdrifaríkar ákvarðanir er að ræða. Starfsemin sem fer fram hér á stofnuninni er samofin og að tala um að efla eigi heilsugæsluna og að fjárveiting til hennar hækki um 10,5 milljónir króna á meðan fjárveiting til stofnunarinnar í heild er skorin niður um 247,9 milljónir lætur í okkar eyrum sem skrum. Við getum ekki séð að þessi gífurlegi niðurskurður á fjárveitingum til heilbrigðisþjónustunnar á landsbyggðinni hafi neinn sparnað í för með sér fyrir heilbrigðiskerfið heldur er þetta eingöngu tilfærsla á fjármunum frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins.
Auk þess sem þjóðhagslega hagkvæm starfsemi sem ekki verður betur sinnt annars staðar leggst niður, mun þessi niðurskurður hafa mikil áhrif á nærsamfélagið. Góð heilbrigðisþjónusta er eitt af því sem vegur þungt þegar fólk tekur ákvörðun um hvar það vill búa. Fjölbreytileiki í atvinnulífinu er nauðsynlegur til að viðhalda blómlegri byggð og með ákvörðun stjórnvalda um þennan gríðarlega niðurskurð á heilbrigðisþjónustunni utan Reykjavíkur og Akureyrar fáum við ekki séð að þeim sé alvara í því að viðhalda búsetu á landsbyggðinni.
Við starfsfólk hér við stofnunina treystum ykkur þingmönnum til að standa vörð um hagsmuni okkar og um leið þjóðarinnar í heild og koma í veg fyrir að þessi niðurskurður verði að raunveruleika með þeim víðtæku neikvæðu afleiðingum sem það mun hafa á sveitarfélagið okkar bæði til lengri og skemmri tíma.
Fyrir hönd starfsfólks Heilbrigðisstofnunarinnar Sauðárkróki,
Friðjón Bjarnason heilsugæslulæknir,
Kristrún Snjólfsdóttir hjúkrunarfræðingur.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.