Tillögur um lækkun húshitunarkostnaðar

Í gær flutti Einar K Guðfinnsson á Alþingi ásamt 14 öðrum þingmönnum úr fjórum stjórnmálaflokkum þingsályktunartillögu um að sett verði á laggirnar nefnd sem móti tillögur um lækkun húshitunarkostnaðar. -Fyrir þessu eru margvísleg rök sem eru tíunduð í greinargerðinni, segir Einar.

-Við vitum að húshitunarkostnaður er orðinn mjög íþyngjandi á mörgum landssvæðum. Þetta hefur mjög verið að versna á undanförnum árum og á innan við áratug hefur kostnaðurinn aukist um allt að 72% á föstu verðlagi í dreifbýli. Þetta er auðvitað gjörsamlega óboðlegt og himinhrópandi óréttlæti. Þetta skapar svo mikið ójafnræði í þjóðfélaginu að við getum ekki hreinlega við þetta unað. Við verðum að breyta þessu, segir Einar.

-Stundum hefur okkur gengið þokkalega við að ná í fjármagn til þess að lækka húshitunarkostnaðinn og stundum illa og nú síðustu árin hafa fjárveitingar farið mjög lækkandi. Núna með versnandi lífskjörum er þessi kostnaðurinn bókstaflega farinn að sliga fólk. Það eru til dæmi um fólk sem ræður hreinlega ekki við þennan kostnaðarlið en getur svo ekki minnkað við sig húsnæði af mörgum ástæðum. Fólk er með öðrum orðum komið í algjöran vítahring.

Einar telur þetta vera mikið réttlætismál sem eigi að hefja upp úr dægurþrasinu eða pólitísku þrasi. -Við eigum að skapa um málið þverpólitíska samstöðu og koma því í einhvern varanlegan farveg svo við þurfum ekki stöðugt að heyja þessa varnarbaráttu um svona sjálfsagt mál. Þess vegna er lagt til að nefndin sem um þessi mál fjalli sé þverpólitísk og verði líka skipuð fulltrúum orkufyrirtækja og sveitarfélaga.

Miðað við það hversu góðar viðtökur málið fékk, þegar Einar leitaði eftir meðflutningsmönnum og sú staðreynd að nær fjórðungur þingmanna, fólk úr Sjálfstæðisflokki, Framsóknarflokki, Vinstri grænum og Samfylkingu segir hann að það auki honum bjartsýni að menn fari í þessi verk.

Sjá þingsályktunartillögu HÉR

Fleiri fréttir