Tími nagladekkjanna kominn?

Ökumenn í vandræðum í Bakkaselsbrekkunni í morgun. Mynd: Hafdís Skúladóttir.
Ökumenn í vandræðum í Bakkaselsbrekkunni í morgun. Mynd: Hafdís Skúladóttir.

Ökumenn hafa í dag lent í vandræðum á leið sinni um Öxnadalsheiði en þar er nú frost og snjókoma og vegurinn háll. Vegfarandi á austurleið sagði marga bíla vera stopp við Bakkasel sem kæmust ekki upp brekkuna. A.m.k. einn bíll hafði endað utan vegar í Öxnadalnum. Taldi viðmælandi Feykis bílana eiga það sammerkt að vera enn á sumardekkjum.

Á Veður.is má lesa að suðaustan 10-15 og rigning eða slydda verði á spásvæði Stranda og Norðurlands vestra. Hægari og úrkomulítið verður síðdegis með hita frá tveimur stigum til átta. Snýst í vestlæga átt, 8-15 með skúrum í nótt, en breytileg átt 8-13 og skúrir eða slydduél á morgun. Kólnar heldur.

Veðurhorfur á landinu næstu daga:
Á miðvikudag:
Gengur í austan og norðaustan 13-20 með rigningu eða slyddu, fyrst sunnanlands. Hiti 1 til 8 stig, mildast syðst.

Á fimmtudag:
Snýst í hvassa norðanátt með slyddu eða snjókomu á norðanverðu landinu, rigningu með austurströndinni, en yfirleitt þurrt sunnanlands. Hiti frá frostmarki í innsveitum fyrir norðan, upp í 7 stig syðst. Hægari og úrkomuminna um kvöldið.

Á föstudag:
Hæg vestlæg eða breytileg átt og víða bjart veður, en él á stöku stað við ströndina. Kalt í veðri.

Á laugardag:
Gengur í hvassa suðaustanátt með rigningu eða slyddu, einkum sunnan- og vestanlands. Hlýnar í veðri.

Á sunnudag:
Útlit fyrir suðlæga átt með skúrum eða éljum, en léttir víða til á Norður- og Austurlandi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir