Tími til kominn að kveikja á perunni!

Misskilningur vill stundum vinda upp á sig og verða að ennþá stærri misskilningi, þannig er því alla vega háttað með perusölu Lionsklúbbs Sauðárkróks sem nú hefur tekist að eigna annars vega Lionsklúbbnum Björk í auglýsingu í Sjónhorninu og hins vegar Lionsklúbbi Skagafjarðar í leiðréttingu á Feyki.is í dag.

Það vill til að Lionsmenn eru seinþreyttir til vandræða og hafa húmor  fyrir þessu, alla vega er það svo með Alla Munda í Lionsklúbbi Sauðárkróks, sem sendi Feyki þessar vísur, og lét það fylgja að í Björk væru eingöngu konur en karlar í hinum þremur Lionsklúbbunum í Skagafirði.

Ég sendur var út af örkinni
að auglýsa perusölu.
Nú erum við allir í Björkinni
hver einasti með tölu.

Margur hlutur miður fer
hjá mannlegri verunni.
En kannski tími kominn er
að kveikja á perunni.

 

 

Fleiri fréttir