Tindastóll Íslandsmeistarar
Þann 12. apríl síðastliðinn var Íslandsmeistaramót yngri flokka í júdó haldið hjá Ármanni í Reykjavík. 5 keppendur frá Tindastól mættu til leiks en því miður fengu bara fjögur að keppa.
Jóhanna María Grétarsdóttir Noack keppti í fyrsta sinn í 3 ár í sínum þyngdar-og aldursflokki og varð íslandsmeistari í U15, -52kg flokk. Caitlynn Morrie Sandoval Mertola vann til silfurverðlauna í U18, -52kg og Jo Althea Marien Sandoval Mertola vann brons verðlaun í sama flokki U18, -52kg.
Freyr Hugi Herbergsson sýndi góða takta í U21 flokk en komst ekki á verðlaunapall. Harpa Sóllilja Guðbergsdóttir fyrrum Íslandsmeistari í U15, +70kg flokk hafði því miður engan mótherja svo henni tókst ekki að keppa að þessu sinni.
Viku eftir Íslandsmeistaramótið tók Jóhanna María þátt á Copenhagen open en tókst ekki að sýna sína bestu takta. Það gæti spilað inní að misskilningur varð um gistiaðstæður með þeim afleiðingum að hún varð að sofa á gólfi íþróttahússins í Kaupmannahöfn. Þessi ferð fer þó engu að síður í reynslubankann og ekki síst í reynslubanka fararstjórans (s.s. þjálfara og móður Jóhönnu Maríu).