Tindastóll - Njarðvík í kvöld, sýndur á Tindastóll TV

Tindastóll tekur á móti Njarðvík í síðasta leik sínum fyrir jólafrí í kvöld í Síkinu kl. 19.15. Fyrir leikinn, verður haldinn stuðningsmannafundur með ársmiðahöfum körfuknattleiksdeildar, þar sem þjálfari og stjórnarmenn munu ræða málin við stuðningsmenn. Einnig er stefnt á fyrstu útsendingu Tindastóll-TV frá leiknum.

Njarðvíkingum hefur verið lýst sem sofandi risum þetta tímabilið, hafa byrjað óvenju illa í deildinni og sitja nú í 8. sæti með 8 stig. Tindastóll er hins vegar í því 10. með 6 stig og leikurinn afar mikilvægur fyrir okkar menn. Með sigri geta þeir væntanlega lyft sér upp í úrslitakeppnissæti, sem væri gott fyrir sálrænu hliðina þegar líður að jólum.

Okkar menn eru óðum að tjasla sér saman eftir "hnjösk" í síðustu leikjum. Rikki og Helgi Freyr hafa náð sér af sínum meiðslum og eiga að vera í góðu standi á fimmtudaginn. Helga Rafni Viggóssyni var vísað af velli í leiknum í Keflavík á sunnudaginn, en hann sleppur við áminningu eftir dóm aganefndar KKÍ í gær þriðjudag.

Strákarnir hafa sýnt það í undanförnum leikjum að þeir geta unnið hvern sem er hvar sem er. Liðið á talsvert inni í Svavari, sem á eftir að komast betur í takt við leik liðsins og þegar það gerist verður fjandinn laus. Líklegt byrjunarlið Tindastóls eru: Sean, Rikki, Hayward, Kiki og Helgi Rafn.

Fyrir leikinn mun stjórn körfuknattleiksdeildar boða ársmiðahafa í súpu og spjall í matsal Árskóla, en gengið er inn um aðalinngang sunnan megin á íþróttahúsinu. Þar mun Borce þjálfari mæta strax kl. 18 og fara yfir leikskipulagið í leiknum, auk þess að svara fyrirspurnum. Stjórnarfólk mun greina frá starfsemi deildarinnar en mest er þetta hugsað fyrir fólk að spjalla saman og gíra sig upp í stórleikinn við Njarðvíkinga. Mælist fundurinn vel fyrir, er áhugi á að halda þessum samverustundum áfram.

Tilraunaútsendingar munu hefjast frá leiknum á Tindastóll-TV og hægt er að smella á upplýsingasíðu Tindastóll-TV neðst í tenglaröðinni vinstramegin á síðunni, til að komast inn á útsendinguna.

Fleiri fréttir